banner
   þri 05. október 2021 22:20
Jóhann Þór Hólmgrímsson
Reyna að búa til bestu blönduna - „Held að framtíðin sé björt"
Icelandair
Á landsliðsæfingu í dag.
Á landsliðsæfingu í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Framundan hjá A-landsliðinu eru leikir gegn Armeníu og Liechtenstein í undankeppni fyrir HM. Í dag var haldinn Teams-fréttamannafundur og sátu þjálfararnir fyrir svörum.

Það eru sjö leikmenn í hópnum sem eru gjaldgengir í U21 landsliðið. Arnar og Eiður voru spurðir að því hvort það væri gott eða slæmt.

„Það er mikilvægt að víð rýnum í þetta og gerum okkur grein fyrir því hvað er best fyrir hvern og einn leikmann hverju sinni. Til dæmis í síðasta glugga þegar við sáum fram á að Mikael Egill myndi ekki spila mikið fyrir okkur í þessum þremur leikjum þá létum við hann spila með u21 árs liðinu. Við erum alltaf að reyna að vinna í sameiningu við bæði u19 ára og u21 árs þjálfarann, allir þjálfararnir hjá KSí eru að vinna saman," sagði Arnar.

„Undir eðlilegum kringumstæðum værum við með 17-18 eldri leikmenn með mikla reynslu og 5-7 unga leikmenn sem eru að taka sín fyrstu skref. Hjá okkur er þetta alveg öfugt núna en það eru mikil og góð tækifæri fyrir þessa ungu leikmenn á u21 árs aldri og aðeins eldri að taka mikilvæg skref og fá mikilvæga leiki og reynslu á næstu mánuðum, að eigna sér sæti í landsliðinu og byrjunarliðinu. Það er þeirra að gera það. Við erum að reyna að tengja við hvern og einn leikmann, hvar er best að spila erum líka að reyna búa til okkar bestu blöndu af liði," hélt Arnar áfram.

„Þetta hefur keðjuverkun, það eru leikmenn sem koma inn í u21 landsliðshópinn aðeins fyrr en í eðlilegum heimi. Það hafa verið miklar breytingar í A-liðinu sem hefur keðjuverkun niður í u21 liðið og 21 árs liðið mun hafa áhrif á u19 liðið. Það gefur okkur tíma að vinna með yngri leikmönnum fyrr og þið getið ímyndað ykkur ef þeir eru á þessum stað núna hvað mun gerast hjá þeim ef allt er eðlilegt hjá þeim hjá þeirra félagsliðum, hvar getum við verið eftir tvö ár sem A-landslið. Þá erum við komnir með unga leikmenn á besta aldri, samt komnir með þessa reynslu. Þá held ég að framtíðin sé mjög björt," sagði Eiður Smári.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner