Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mið 05. október 2022 11:57
Elvar Geir Magnússon
Dagur Dan hefur komið pabba sínum á óvart
Dagur Dan Þórhallsson.
Dagur Dan Þórhallsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þórhallur Dan í stúkunni á Kópavogsvelli.
Þórhallur Dan í stúkunni á Kópavogsvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Dagur Dan Þórhallsson hefur verið einn besti leikmaður Bestu deildarinnar í sumar og var til að mynda valinn í úrvalslið annars þriðjungs hér á Fótbolta.net og kosinn næst besti miðjumaður deildarinnar af lesendum.

Dagur gekk í raðir Breiðabliks frá Mjöndalen fyrir tímabilið en hann féll með Fylki þar sem hann var á láni. Þessi 22 ára leikmaður hefur slegið í gegn í Kópavogi og komið mörgum á óvart. Þar á meðal pabba sínum. Þórhallur er sérfræðingur í hlaðvarpsþættinum Mín skoðun og í nýjasta þættinum ræddi hann aðeins um son sinn.

Faðir hans, Þórhallur Dan, er fyrrum leikmaður í efstu deild og núverandi þjálfari 3. flokks HK.

„Þetta er föðurbetrungur, hann er ótrúlega flottur. Hann hefur prófað ýmislegt í þessum fótbolta á stuttri ævi og órúlegt hvað hann hefur haldið haus. Ég væri löngu kominn heim grenjandi," segir Þórhallur en Degi gekk erfiðlega að koma meistaraflokksferlinum almennilega af stað áður en hann kom í Kópavoginn.

„Honum líður ótrúlega vel í Breiðabliki. Óskar og Dóri (Óskar Hrafn Þorvaldsson og Halldór Árnason þjálfarar Blika) hafa gert alveg ótrúlega mikið fyrir hann. Þegar hann kom þurftu þeir að taka aðeins á honum og sýna honum réttu leiðina. Hann hefur tekið sínu hlutverki þegjandi og hljóðalaust."

Síðasta vetur vöktu ummæli Þórhalls mikla athygli en hann gagnrýndi þá ýmsa þjálfara fyrir að nota son sinn ekki rétt, hann væri miðjumaður. Hjá Blikum hefur Dagur hinsvegar spilað hinar ýmsar stöður en alltaf leyst sitt hlutverk frábærlega. Þórhallur viðurkennir að hafa ekki gert sér grein fyrir fjölhæfni Dags.

„Ég vissi að hann væri fjölhæfur en ég vissi ekki að hann væri svona fjölhæfur. Það er Óskari og Dóra að þakka líka. Hann hefur leyst þær stöður þar sem vandamál hafa komið upp í sumar. Hann á þetta svo skilið, ég veit hvað hann hefur lagt á sig síðan hann var tólf ára. Hann hefur hugsað um sig sem atvinnumaður, það kemur mér ekki á óvart hvað hann getur í fótbolta en kemur mér á óvart í sumar hvað hann getur spilað margar stöður," segir Þórhallur í Mín skoðun.

Breiðablik er á hraðri leið með að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í ár og þar hefur Dagur leikið algjört lykilhlutverk. Í lok ágúst mætti hann í viðtal í útvarpsþættinum Fótbolti.net og ræddi meðal annars um hlutverk sín.

„Ef ég er að spila í liði sem er að gera vel á Íslandi þá er mér nokkuð sama. Ef ég væri að spila í marki, þá gæti mér ekki verið meira sama," segir Dagur Dan í þættinum en með því að smella hérna má hlusta á þáttinn og viðtalið við Dag.
Athugasemdir
banner
banner
banner