Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   mán 05. desember 2016 19:00
Magnús Már Einarsson
Sam Tillen leggur skóna á hilluna
Sam í leik með Fram í sumar.
Sam í leik með Fram í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sam í leik með FH.
Sam í leik með FH.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Enski vinstri bakvörðurinn Sam Tillen hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna, 31 árs að aldri. Sam hefur leikið á Íslandi frá því árið 2008 með bæði Fram og FH.

„Ég hef ákveðið að segja þetta gott af fótbolta. Eftir erfið meiðsli, fótbrot, slæmt kinnbeins/augnbeinsbrot, rifinn kálfa og fleira, finnst mér ekki þess virði að halda áfram. Svo fékk ég líka frábært tækifæri til að þjálfa í fullu starfi í yngri flokkum FH," sagði Sam við Fótbolta.net í kvöld.

Sam ólst upp hjá Chelsea en hann kom til Fram fyrir tímabilið 2008. Eftir fimm ára dvöl hjá Fram fór Sam í FH þar sem hann var fastamaður árið 2013.

Sam fótbrotnaði illa í leik í Lengjubikarnum gegn HK árið 2014 og missti af öllu tímabilinu. Árið 2015 spilaði hann síðan átta leiki með FH þegar liðið sigraði Pepsi-deildina.

Í sumar var Sam á láni hjá Fram þar sem hann var fyrirliði í Inkasso-deildinni. Á sínum tíma spilaði Sam með bróður sínum Joe hjá Fram og hann segir það hafa staðið upp úr á ferlinum.

„Ég myndi segja að hápunkturinn hafi verið að spila með bróður mínum í Fram, það voru góðir tímar. Það var gaman að spila saman með honum þar sem að við héldum að það myndi ekki gerast aftur eftir varaliðstímana í Chelsea," sagði Sam.

„Annars naut ég þess mikið að spila bæði með Fram og FH. Þegar ég kom fyrst til Íslands skrifaði ég aðeins undir 6 mánaða samning en nú á ég hér íbúð á Íslandi, íslenska konu og hund ásamt því að ég hef lært nýtt tungumál og kynnst mikið af frábæru fólki í gegnum fótbolta og aðra vinnu."

„Ég er mjög spenntur að fara á fullt í þjálfun eftir að hafa verið að þjálfa með boltanum síðustu ár. Nú get ég einbeitt mér að því að þjálfa unga krakka, bæði þá sem vilja bara hafa gaman og einnig þá sem vilja ná langt."


Sam hefur skrifað fjölda áhugaverðra pistla á Fótbolta.net í gegnum tíðina.

Smelltu hér til að lesa pistlana
Athugasemdir
banner
banner
banner