mið 05. desember 2018 18:00
Magnús Már Einarsson
Megan, Brittany, Birna og Bryndís ekki áfram hjá Stjörnunni
Megan Dunnigan.
Megan Dunnigan.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Katrín Ásbjörnsdóttir.
Katrín Ásbjörnsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bandarísku varnarmennirnir Brittany Basinger og Megan Dunnigan verða ekki áfram í herbúðum Stjörnunnar á næsta tímabili. Þetta staðfesti Kristján Guðmundsson, þjálfari liðsins, í samtali við Fótbolta.net.

Megan kom til Stjörnunnar frá FH fyrir síðasta tímabil og spilaði alla leikina með Garðabæjarliðinu síðastliðið sumar. Brittany spilaði þrettán leiki.

Markvörðurinn Birna Kristjánsdóttir er einnig á förum frá Stjörnunni og þá hefur Bryndís Björnsdóttir ákveðið að leggja skóna á hilluna. Birna spilaði átta leiki í Pepsi-deildinni síðastliðið sumar og Bryndís þrettán.

Sóknarmennirnir Telma Hjaltalín Þrastardóttir og Harpa Þorsteinsdóttir slitu báðar krossband í hné undir lok síðasta sumars og verða ekki með Stjörnunni næsta sumar.

Berglind Hrund Jónasdóttir, markvörður, verður einnig frá keppni í að minnsta kosti fram í mars eftir að hafa farið í aðgerð vegna meiðsla á rist.

Hræringar hafa orðið í leikmannahópi Stjörnunnar í vetur en Lára Kristín Pedersen er farin í Þór/KA, Ásgerður Stefanía Baldursdóttir í Val, Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir í Kristianstad og þær Ana Victoria Cate og Kristrún Kristjánsdóttir hafa gengið til liðs við HK/Víking.

Stjarnan hefur hins vegar fengð fimm nýja leikmenn. Það eru Sóley Guðmundsdóttir frá ÍBV, Jasmín Erla Ingadóttir og Diljá Ýr Zomers frá FH, María Sól Jakobsdóttir frá Grindavík og Helga Guðrún Kristinsdóttir frá Grindavík.

Óvissa með Katrínu
Sóknarmaðurinn öflugi Katrín Ásbjörnsdóttir ber barn undir belti og ólíklegt er að hún spili eitthvað með Stjörnunni næsta sumar.

„Ég er sett í lok april og þá er tímabilið rétt að byrja. Ég ætla mér samt ekki að flýta mér neitt af stað, byrja bara rólega og sjá svo til. Mig langar bara að njóta meðgöngunnar og ekki hugsa um fótbolta í smá tíma. Eins og er líður mér vel og vonandi helst það þannig," sagði Katrín við Fótbolta.net.

„Ég veit ekkert um næsta tímabil. Planið mitt er í rauninni að taka engan þátt í því en ef vel gengur og mig langar aftur fljótt inn á völlinn þá skoða ég það bara. Ef ég á að vera hreinskilin þá sakna ég fótboltans ekkert eins og er og finnst bara æðislegt að stunda aðra hreyfingu og takast á við þetta nýja hlutverk."
Athugasemdir
banner
banner