mán 06. janúar 2020 18:40
Ívan Guðjón Baldursson
De Rossi leggur skóna á hilluna
Mynd: Getty Images
Hinn 36 ára gamli Daniele De Rossi er að leggja skóna á hilluna samkvæmt Sky á Ítalíu.

De Rossi er goðsagnakenndur miðjumaður sem gerði garðinn frægan hjá AS Roma og með ítalska landsliðinu.

Samningur hans við Roma rann út eftir síðustu leiktíð og ákvað hann að skipta yfir til Boca Juniors í Argentínu eftir að hafa lifað í Róm alla ævi.

Hann gerði eins árs samning við argentínska stórveldið en meiðsli settu strik í reikninginn og spilaði hann aðeins sex leiki fyrir félagið.

Þrátt fyrir mikla hæfileika vann De Rossi ekki mikið með Roma, aðeins ítalska bikarinn 2007 og 2008 eftir að hann vann HM 2006 með Ítalíu.

Stórveldi á borð við Real Madrid og Paris Saint-Germain gerðu tilraunir til að fá De Rossi til sín en Ítalinn vildi vera eftir í höfuðborginni, líkt og Francesco Totti.

De Rossi spilaði rúmlega 600 leiki fyrir Roma og skoraði 63 mörk. Fyrir Ítalíu skoraði hann 21 mark í 117 leikjum.

Hann var fyrirliði bæði hjá Roma og ítalska landsliðinu.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner