Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mán 06. janúar 2020 13:00
Magnús Már Einarsson
Gylfi svekktur: Getum bara kennt sjálfum okkur um
Gylfi í baráttu við Adam Lallana í leiknum í gær.
Gylfi í baráttu við Adam Lallana í leiknum í gær.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Gylfi Þór Sigurðsson segir að leikmenn Everton séu gríðarlega svekktir með frammistöðuna í 1-0 tapinu gegn Liverpool í enska bikarnum í gær.

Liverpool stillti upp varaliði í leiknum en náði þrátt fyrir það að hafa betur í grannaslagnum.

Gylfi var spurður að því hvort Carlo Ancelotti, stjóri Everton, hafi verið reiður eftir leikinn í gær: „Að sjálfsögðu. Enginn er ánægður með að tapa og við erum úr leik í bikarnum. Þetta er hluti af starfinu."

„Allir sem tengjast félaginu, stuðningsmenn, starfsmenn og leikmenn eru svekktir með úrslitin. Ég held að við getum bara sjálfum okkur kennt fyrir að nýta ekki færin í fyrri hálfleik. Þetta er mjög svekkjandi."

„Við þurfum að halda áfram að standa okkur vel í deildinni eins og síðustu vikur og klára tímabilið vel."


Eftir leik bauluðu stuðningsmenn Everton á leikmenn liðsins en Djibril Sidibe var eini leikmaðurinn sem fór og þakkaði stuðningsmönnum fyrir stuðninginn eftir leik.

„Ég held að allir hafi verið svekktir. Það er mismunandi hvernig leikmenn takast á við töp og þetta er einn af þessum hlutum. Auðvitað fara vanalega fleiri leikmenn til stuðningsmanna. Þetta er ekki eitthvað sem liðið sleppir vanalega að gera og ég er viss um að fleiri fara til þeirra í framtíðinni," sagði Gylfi.
Athugasemdir
banner
banner