fim 06. febrúar 2020 12:38
Magnús Már Einarsson
FH ætlar að sækja liðsstyrk - Bjarni og Davíð Viðars hjálpa til
Ólafur Kristjánsson.
Ólafur Kristjánsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Davíð Viðars hætti að spila eftir síðasta tímabil en hann er nú að hjálpa FH með leikmannamálin.
Davíð Viðars hætti að spila eftir síðasta tímabil en hann er nú að hjálpa FH með leikmannamálin.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, er í viðtali í í hlaðvarpsþættinum Fantasy Gandalf í dag. Þar tjáir hann sig meðal annars um leikmannamál félagsins.

Baldur Sigurðsson er eini leikmaðurinn sem FH hefur fengið til sín í vetur en Brandur Olsen, Cedric D´Ulivo, Davíð Þór Viðarsson,
Halldór Orri Björnsson, Kristinn Steindórsson, Pétur Viðarsson og Vignir Jóhannesson eru allir farnir frá síðasta tímabili.

„Baldur er algjör topp karakter og góður í fótbolta. Ég er gríðarlega ánægður með að hafa tekið hann. Það voru ákveðnir leiðtogar sem hættu hjá okkur. Það er erfitt að búa til leiðtoga og við þurftum að fá rödd inn í klefann sem er skynsöm og metnaðarfull. Baldur hefur ekki sýnt annað en hann er það. Hlutverk hans hjá okkur verður kannski öðruvísi en hjá Stjörnunni," sagði Ólafur í þættinum.

Ólafur segir að Baldur verði miðjumaður en ekki miðvörður eins og hann var hluta til hjá Stjörnunni í fyrra. „Hann verður á miðjunni að megninu til," sagði Ólafur en hann sagði einnig frá því í þættinum að Guðmundur Kristjánsson verði áfram miðvörður hjá FH en ekki á miðjunni.

Setja kraft í að manna hópinn
FH endaði í botnsæti í A-deild Fótbolta.net mótsins en þar var leikmannahópur liðsins mjög ungur. Ólafur segist vonast til að fá liðsstyrk á næstunni.

„Við erum ekki ennþá búnir að manna hópinn okkar og það er ekki gott. Það er verið að setja kraft í það. Það eru komnir góðir menn á bakvið mig sem ætla að aðstoða mig í því. Þar eru meðal annars bræðurnir Bjarni og Davíð (Viðarssynir). Þeir eru komnir í svona stuðningsgengi hjá okkur og Jón Erling Ragnarsson líka. Þetta eru góðir FH-ingar sem eru að aðstoða mig í að reyna að láta verða að veruleika að það komi fleiri leikmenn í FH."

„Við höfum verið að spila á gríðarlega ungu liði. Við höfum spilað á 2004 strákum og strákum sem eru ennþá í 2. flokki. Það er líka ákveðin fegurð í því. Við höfum séð leikmenn stíga upp í vetur og sýna að það er kannski styttra í þá en við höldum. Ef við hefðum ekki gert þetta þá hefðum við ekki haft þá vitneskju í dag. Það eru verðmæti í því líka. Við megum heldur ekki blekkja okkur á því að frá degi eitt séu þeir stífbónaðir og klárir í að spila í Pepsi-deildinni,"
sagði Ólafur í Fantasy Gandalf.

Smelltu hér til að nlusta á hlaðvarpsþáttinn Fantasy Gandalf í dag
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner