banner
   mán 06. febrúar 2023 08:20
Ívan Guðjón Baldursson
Marsch: Óþægileg tilfinning að vera betra liðið
Mynd: EPA

Slæmt gengi Leeds United hélt áfram í gær þegar liðið tapaði fallbaráttuslag gegn Nottingham Forest.


Eins og svo oft áður var Leeds sterkari aðilinn í leiknum en átti í vandræðum með að skapa og nýta færi.

„Ég er svekktur og pirraður. Við byrjuðum virkilega vel og svo skoruðu þeir úr sinni fyrstu og einu sókn í fyrri hálfleik. Við reyndum að koma til baka en við eigum í vandræðum með að setja boltann í netið," sagði Marsch að leikslokum.

„Ég verð að finna leiðir til að ná meira út úr þessum leikmönnum. Ég þarf að passa að enginn detti í sjálfsvorkunn, það mikilvægasta núna er að halda okkur sterkum andlega því við munum vinna fótboltaleiki ef við höldum áfram að spila vel.

„Ég átta mig á því að úrslitin eru ekki nægilega góð og að ég þarf að axla ábyrgð. Þetta er óþægileg tilfinning að vera betri liðið í leikjum en takast ekki að sigra þá."

Hinn bandaríski Marsch er að byggja liðið sitt á ungum leikmönnum og áttar sig á því að þeir munu verða talsvert betri eftir meiri aðlögunartíma.

„Við erum með ungan leikmannahóp en við þurfum samt að finna leiðir til að sigra leiki. Við þurfum að finna leið til að breyta yfirburðum okkar á vellinum í mörk. Mér líður eins og við séum að þokast í rétta átt en ekki alveg nógu hratt. Við verðum að gera betur."


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner