fös 06. mars 2020 14:03
Magnús Már Einarsson
Alisson missir líka af leiknum við Atletico Madrid
Alisson.
Alisson.
Mynd: Getty Images
Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, staðfesti á fréttamannafundi sínum í dag að brasilíski markvörðurinn Alisson verður ekki með Liverpool gegn Bournemouth á morgun og gegn Atletico Madrid í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar á miðvikudag.

Klopp greindi frá því í byrjun fréttamannafundar í dag að Alisson væri meiddur og síðar á fundinum staðfesti hann að leikmaðurinn verði ekki með í stórleiknum í Meistaradeildinni í næstu viku. Hann er einnig tæpur fyrir grannaslaginn gegn Everton mánudaginn 16. mars. Alisson meiddist á mjöðm á æfingu fyrir leikinn gegn Chelsea í enska bikarnum á þriðjudaginn.

„Þetta var lítill vöðvi í kringum mjöðmina. Þú getur gert nánast allt þrátt fyrir meiðslin en hann getur það ekki þar sem hann er markvörður," sagði Klopp í dag. „Við sjáum hvað hann verður lengi frá. Þetta er pottþétt næsta vika og svo sjáum við til."

Adrian varði mark Liverpool gegn Chelsea og gerði sig sekan um klaufaleg mistök í fyrsta markinu. Spánverjinn varði einnig mark Liverpool í nokkrar vikur í byrjun tímabils og hann mun standa á milli stanganna á morgun og gegn Atletico Madrid.

Caoimhin Kelleher, þriðji markvörður Liverpool, er einnig meiddur og því verður hinn 36 ára gamli Andy Lonergan á bekknum á morgun.
Athugasemdir
banner
banner
banner