Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 06. mars 2020 09:36
Elvar Geir Magnússon
Ari Leifs: Þetta gerðist allt mjög hratt
Ari í leik með U21 landsliðinu.
Ari í leik með U21 landsliðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ari í leik með Fylki.
Ari í leik með Fylki.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Varnarmaðurinn Ari Leifsson samdi í vikunni við norska úrvalsdeildarfélagið Strömsgodset. Ari er 21 árs miðvörður sem hefur verið í stóru hlutverki hjá Fylki í efstu deild síðustu tvö ár.

Ari virtist ekki vera á leið út í atvinnumennsku strax en hann segir í viðtali við Fótbolta.net að hlutirnir hafi gerst mjög hratt.

„Aðdragandinn var mjög stuttur, þetta gerðist allt saman mjög hratt og ég var ekki alveg að búast við þessu á þessum tímapunkti. Ég var kominn til Noregs innan við viku frá því þetta kom upp," segir Ari.

En var þetta auðveld ákvörðun?

„Já, þetta var auðveld ákvörðun eftir að ég hafði kynnt mér klúbbinn og rætt við þjálfarann."

Hverjar eru hans væntingar til þessara félagaskipta?

„Mínar væntingar eru að bæta mig sem knattspyrnumann og stíga næsta skref á mínum ferli. Mér líst mjög vel á klúbbinn, það var tekið mjög vel á móti mér og allir mjög hjálpsamir með allt. Hópurinn er mjög flottur og mikil samkeppni um allar stöður sem er mjög mikilvægt," segir Ari.

Draumabyrjun á árinu
Hann hefur heillað með U21 árs landsliði Íslands og þá spilaði hann fyrstu A-landsleiki sína í janúarverkefninu í Los Angeles. Þetta hefur því verið draumabyrjun hjá honum á árinu 2020.

„Jú, það er alveg óhætt að segja að þetta sé búið að vera þvílík draumabyrjun og það var virkilega gaman að fá tækifæri til að takast á við A-landsliðsverkefni en nú er mikil vinna og nýjar áskoranir framundan sem ég hlakka til að takast á við."

Sem ungur leikmaður, í hverju telur Ari sig helst geta bætt sig?

„Ég held að maður geti alltaf bætt sig og mér finnst ég þurfa að bæta mig á nokkrum sviðum til að geta spilað á hærra leveli með nýju liði. Ég finn strax að hraðinn og tempóið er mun meira á æfingum en ég er vanur."

Fylki vantar augljóslega hafsent núna
Ari yfirgefur nú sitt uppeldisfélag en telur að það sé spennandi sumar framundan hjá Fylki í Pepsi Max-deildinni.

„Mér lýst vel á komandi tímabil hjá Fylki, það eru smá breytingar á liðinu og áherslum en það verður spennandi að fylgjast með og þá sérstaklega sóknarmönnum liðsins. Ég held að þeir geti komið á óvart ef allir haldast heilir," segir Ari

Að lokum var hann spurður að því hvort hann væri bjartsýnn á að Fylkir nái að fylla hans skarð?

„Já ekki spurning! Liðinu vantar samt augljóslega hafsent núna þar sem Orri og Geiri (Orri Sveinn Stefánsson og Ásgeir Eyþórsson) eru bara tveir en ég held að þeir muni finna einhvern öflugan til að styrkja liðið."
Athugasemdir
banner
banner
banner