Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mið 06. maí 2020 14:00
Hafliði Breiðfjörð
Miðjan
Bjarnólfur og félagar sendir heim frá Glasgow eftir þjófnað
Bjarnólfur Lárusson er gestur vikunnar í Miðjunni.
Bjarnólfur Lárusson er gestur vikunnar í Miðjunni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bjarnólfur Lárusson er gestur vikunnar í podcastþættinum Miðjan hér á Fótbolta.net. Hann fer þar yfir ferilinn sinn sem hófst hjá ÍBV en seinna varð hann atvinnumaður í Skotlandi og Englandi.

Hlustaðu á þáttinn í spilaranum að neðan eða finndu hann á öllum helstu podcastveitum undir Fótbolti.net.

Í þættinum sem birtist í dag segir hann frá ferð sem hann fór í 16 ára gamall ásamt Gunnari Sigurðssyni og Daða Pálssyni þar sem þeir fengu að æfa hjá Glasgow Rangers í Skotlandi.

„Þá tíðkaðist það í kringum handbolta að milli leikja var farið í búningsklefa annarra liða og treyjum stolið. Ég fór heim með Breiðabliks og KA treyjur eftir turneringar. Þetta var trend," sagði Bjarnólfur í Miðjunni.

„Við fórum til Rangers og það gekk vel á fyrstu æfingunni og við áttum að vera í viku. Eftir æfinguna ákváðum við að halda þessum leiðinda ávana áfram og stálum allskonar æfingaklæðnaði og handklæðum og sokkum og allskonar drasli. Við héldum að það væri við lýði þar úti líka sem var alls ekki. Strákarnir klöguðu okkur og sögðu að það væri þjófalýður mættur frá Íslandi á Ibrox og væri að stela æfingagöllum," sagði hann.

Drengirnir bjuggu hjá David Moyes föður knattspyrnustjórans þekkta í Glasgow þar sem þeir gistu á meðan tímanum í Skotlandi stóð.

„Hann fær hringingu með þær fregnir að við værum að ræna og rupla á Ibrox. Ég hef aldrei séð fullorðinn mann eins vonsvikinn og hann var með okkur þegar hann segir okkur frá því að við séum ekki velkomnir þarna lengur," sagði Bjarnólfur.

„Hann var búinn að vinna sitt ævistarf í kringum félagið og þetta var mikill blettur fyrir hann kallgreyið. Flug til Glasgow var tvisvar í viku svo við þurftum því að bíða í 3-4 daga hjá honum eftir næsta flugi og fórum svo heim með skottið milli lappanna."
Miðjan - Bjarnólfur var til í að koma nakinn fram fyrir frægðina
Athugasemdir
banner
banner
banner