mið 06. maí 2020 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
Brasilíumenn vilja ekki byrja að spila - Með skilaboð til forsetans
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Helstu leikmenn brasilísku deildarinnar sendu skýr skilaboð til Jair Bolsonaro, forseta landsins, um að þeir væru ekki tilbúnir til að hefja keppni á næstunni vegna kórónuveirunnar.

Opinberar tölur frá Brasilíu herma að tæplega 8000 manns hafi látið lífið vegna veirunnar. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa verið mun vægari en í nágrannalöndunum þar sem minna er um sýkingar og búast sérfræðingar við gífurlegri aukningu á fjölda sýktra Brasilíumanna yfir næstu daga.

Það eru aðeins sex dagar liðnir síðan Bolsonaro hvatti knattspyrnuheiminn til að koma sér aftur af stað sem fyrst. Hann sagði að ungir og hraustir atvinnumenn ættu ekki að óttast 'litla flensu' eins og kórónuveiruna.

Knattspyrnufélög í Brasilíu hafa verið hvött til að hefja æfingar sem fyrst en flest félög virðast vera mótfallin því, enda hefur engum hápunkti verið náð þegar kemur að fjölda sýkinga í landinu.

„Þetta er tími fyrir samhug. Við verðum að koma saman og huga að heilsu allra. Við þurfum öruggt starfsumhverfi," sögðu stjörnur brasilíska boltans í myndbandi sem birt var af Verkalýðsfélagi atvinnufólks í íþróttum. Í myndbandinu komu leikmenn á borð við Diego, Everton Ribeiro og Felipe Melo fyrir.

Melo, sem lék meðal annars fyrir Juventus og Inter og er þekktur fyrir grimmar tæklingar, er mikill stuðningsmaður Bolsonaro. Hann birtist í lok myndbandsins og segir: „Saman munum við sigra þennan leik."
Athugasemdir
banner
banner
banner