Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mið 06. maí 2020 22:00
Fótbolti.net
Fótboltinn griðarstaður í gegnum bróðurmissinn
Anna Björk í leik með Stjörnunni
Anna Björk í leik með Stjörnunni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Anna Björk Kristjánsdóttir atvinnukona er gestur í nýjasta þætti Heimavallarins. Anna Björk spilaði fjóra leiki árið 2008 fyrir KR, en á sama tíma var árið mjög erfitt persónulega fyrir hana þar sem bróðir hennar lést úr krabbameini um mitt sumar.

„Ég sýni því (minni leiktíma) aðeins meiri skilning því bróðir minn veikist mikið 2008. Hann var einu ári eldri en ég, fæddur 1988. Hann greinist með krabbamein. Þannig að ég skil það alveg að það gekk mikið á hjá mér að þjálfarinn Helena væri ekki að henda mér inn á. Hún gaf mér tækifæri til að hugsa um mitt persónulega líf. Hann deyr þarna um mitt sumar 2008. Þegar ég hugsa til baka þá skilur maður alveg að ég var kannski ekki andlega þarna. Það voru mikil áföll sem gengu á allt árið.Ég var upp og niður í skapinu kannski.”

„Á sama tíma var fótboltinn mjög mikilvægur fyrir mig og hann hjálpaði mér gríðarlega til að fá útrás, hugsa um eitthvað annað, hafa gaman, komast í annað umhverfi og hafa gaman með vinkonum mínum. Fótboltinn var minn griðarstaður. Þetta var bara mjög erfitt ár."

Fréttirnar utan vallar höfðu skiljanlega mikil áhrif á Önnu Björk. „Ef ég fékk góðar fréttir af honum og það gekk vel í kannski meðferð þá hafði það áhrif. Ég man eftir einum leik sem ég spilaði með 2. flokki og ég fékk góðar fréttir af honum og þá var orkan svo svakalega mikil og ég varð svo spennt fyrir leiknum. Það var besti leikurinn sem ég spilaði þá og skoraði tvö mörk, hljóp útum allt, og svo kannski tveimur vikum seinna fengum við slæmar fréttir og þá var orkan minni. En ég vildi alltaf mæta á æfingar, vildi alltaf vera til staðar og vildi mæta í leiki.“

Anna ákveður að yfirgefa KR þetta sama ár og segist hafa þurft á breytingum að halda.

„Ég fer eftir tímabilið 2008. Þegar ég hugsa til baka þá var það pirringur yfir að fá ekki fleiri mínútur og mér fannst ég verða að fá reynslu í efstu deild til að bæta mig sem leikmann því ég vildi ná lengra. En ég held að það hafi líka verið að vissu leiti að ég þurfti eitthvað nýtt. Ég þurfti að komast úr umhverfinu sem ég var búin að vera í frá því að hann veikist og deyr síðan um mitt sumar. Ég fann það að ég þurfti að koma mér í nýjar aðstæður og breyta til. Hvetja mig til að halda áfram og bæta mig."

Hlustaðu á Heimavöllinn hér að neðan eða á streymisveitunni þinni.
Heimavöllurinn: Varamaður úr KR keyptur fyrir metupphæð í Hruninu
Athugasemdir
banner
banner