banner
   mið 06. maí 2020 23:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Raðað inn mörkunum og vill ekki að þau verði strikuð út
'En við getum aðeins snúið aftur þegar það er öruggt fyrir alla'
Bethany England fagnar marki. Hún hefur gert nóg af því á þessu tímabili.
Bethany England fagnar marki. Hún hefur gert nóg af því á þessu tímabili.
Mynd: Getty Images
Öflugur markaskorari sem fór á láni til Liverpool til þess að komast svo í lið Chelsea. Hún stefnir á að fara á þau stórmót sem framundan eru með enska landsliðinu.
Öflugur markaskorari sem fór á láni til Liverpool til þess að komast svo í lið Chelsea. Hún stefnir á að fara á þau stórmót sem framundan eru með enska landsliðinu.
Mynd: Getty Images
Móðir Bethany England, sóknarmanns Chelsea, vinnur á sjúkrahúsi í Sheffield í Bretlandi og felst vinnurdagurinn hennar núna í því að prófa fólk fyrir kórónuveirusmiti. Kórónuveirufaraldurinn hefur komið mjög illa út í Bretlandi og hafa rúmlega 200 þúsund smitast og 30 þúsund látist í landinu vegna veirunnar. Nóg er að gera hjá heilbrigðisstarfsfólki þar og annars staðar í heiminum.

England hefur sjálf lagt sitt af mörkum í baráttunni gegn veirunni með því að safna 1000 pundum fyrir heilbrigðisstofnun Bretlands. Hún safnaði þeirri upphæð með því að selja skó sem hún skoraði tvö mörk í þegar Chelsea vann Arsenal í úrslitaleik deildabikarsins í febrúar.

„Ég klappa fyrir heilbrigðisstarfsfólki á hverjum fimmtudegi og þú áttar þig á því hversu mikilvæg þau eru fyrir samfélagið. Vonandi eftir þetta allt saman munu þau fá virðinguna og kaupið sem þau eiga skilið," segir England í viðtali við Sky Sports.

Sum knattspyrnufélög á Englandi hafa notað ríkisaðstoð til þess að hjálpa við að greiða laun. Chelsea er ekki eitt af þeim félögum og þakkar England eiganda Chelsea, Roman Abramovich „Hann hefur passað upp á allt starfsfólkið og Abramovich hefur líka hjálpað NHS (heilbrigðisstofnun Bretlands) mikið. Hann er búinn að gera stórkostlega hluti," segir England.

England vonast til þess að flest lið í kvennaknattspyrnunni komist í gegnum kórónuveirufaraldurinn, en nú þegar hefur verið tilkynnt að kvennalið Fylde AFC hafi verið lagt niður. „Ég vil vona það að flest lið lifi af og við getum komist í gegnum þetta."

Chelsea var í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar þegar stöðva þurfti tímabilið vegna kórónuveirufaraldursins, einu stigi á eftir Manchester City. „Ég myndi elska að klára tímabilið, við erum nú þegar búnar að vinna einn bikar og við teljum okkur geta unnið þrennuna."

England er búin að skora 14 mörk í 15 deildarleikjum fyrir Chelsea á þessu tímabili. Í neðri deildunum á Englandi var tímabilinu hætt og öll úrslit strikuð út. Ekki er enn búið að gefa úrvalsdeild kvenna upp á bátinn. „Ég vil persónulega ekki að mörkin mín verði strikuð út því þetta hefur verið mitt besta tímabil, en við getum aðeins snúið aftur þegar það er öruggt fyrir alla."

Fjölmiðillinn The Athletic opinberaði á dögunum verðlaun sín fyrir fótboltatímabilið á Englandi. England var valin best í úrvalsdeild kvenna.

Hin 25 ára gamla England segir að lánsdvöl hjá Liverpool tímabilið 2017/18 hafi hjálpað sér mikið. „Það hjálpaði mér mikið að fara á láni til Liverpool og fyrir það á Liverpool sérstakan stað í hjarta mínu."

England á fimm A-landsleiki fyrir enska landsliðið, en framundan eru stór ár fyrir liðið. Hún ætlar sér á þau stórmót sem eru framundan. „Þess vegna erum við í þessu," segir hún, en viðtalið við hana má lesa í heild sinni hérna.
Athugasemdir
banner
banner
banner