Barcelona vill Díaz frá Liverpool - Úlfarnir skoða markverði - City til í að hlusta á tilboð í Grealish
   mán 06. júní 2022 12:00
Ívan Guðjón Baldursson
Zinchenko: Áttum ekki skilið að tapa
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Úkraínu mistókst að tryggja sér sæti á lokakeppni HM þegar liðið heimsótti Wales í úrslitaleik umspilsins í gærkvöldi.

Eina mark leiksins kom í fyrri hálfleik þegar Andriy Yarmolenko varð fyrir því óláni að skalla fasta aukaspyrnu frá Gareth Bale í eigið net.

Úkraínumenn vildu fá vítaspyrnu skömmu eftir markið en ekkert var dæmt þegar Joe Allen sparkaði Yarmolenko niður innan vítateigs.

Úkraína var betra liðið í leiknum en tókst ekki að gera jöfnunarmark þar sem Wayne Hennessey varði níu skot. 

Oleksandr Zinchenko, leikmaður Manchester City og Úkraínu, gaf kost á sér í viðtal að leikslokum.

„Hver einasti leikmaður lagði allt í sölurnar í dag. Við erum algjörlega uppgefnir. Við áttum ekki skilið að tapa þessum leik en svona getur gerst í fótbolta," sagði Zinchenko.

„Fótbolti snýst um tilfinningar og við getum gefið okkar stuðningsmönnum magnaðar tilfinningar en því miður þá náðum við ekki úrslitunum sem við vildum í dag."

Stríðið sem geisar í Úkraínu hefur ekki farið framhjá neinum og lauk Zinchenko viðtalinu á nokkrum orðum um það.

„Allir eiga rétt á að lifa í friði og við verðum að stöðva þetta stríð. Í dag er þetta Úkraína en hver veit hvaða land þetta verður á morgun? Við verðum að standa saman."


Athugasemdir
banner
banner