banner
   mán 06. ágúst 2018 16:06
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hamren þjálfaði Atla Svein - „Hef ekkert nema gott um hann að segja"
Icelandair
Atli Sveinn Þórarinsson, fyrrum fyrirliði KA og Vals. Hann lék einnig með Örgryte í Svíþjóð.
Atli Sveinn Þórarinsson, fyrrum fyrirliði KA og Vals. Hann lék einnig með Örgryte í Svíþjóð.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Erik Hamren.
Erik Hamren.
Mynd: Getty Images
,,Fjölmiðlarnir í Svíþjóð eru þannig að þeir munu alltaf gagnrýna eigin landsliðsþjálfara gríðarlegt hart, og jafnvel ósanngjarnt.
,,Fjölmiðlarnir í Svíþjóð eru þannig að þeir munu alltaf gagnrýna eigin landsliðsþjálfara gríðarlegt hart, og jafnvel ósanngjarnt.
Mynd: Getty Images
Eins og vel hefur verið fjallað um er Erik Hamren í viðræðum um að taka við íslenska landsliðinu af Heimi Hallgrímssyni, sem hætti eftir HM í Rússlandi.

Heimir skilaði mögnuðu starfi á sjö árum sínum hjá KSÍ og það verður erfitt að taka við landsliðinu af honum.

Svo virðist sem KSÍ ætli að taka sénsinn á Erik Hamren, fyrrum landsliðsþjálfara Svíþjóðar. Það virkaði vel síðast fyrir KSÍ þegar fyrrum landsliðsþjálfari Svíþjóðar var ráðinn; Lars Lagerback.

Sænskir fjölmiðlar tala þó ekki mjög vel um Hamren. Robert Laul, einn virtasti íþróttafréttamaður Svía, spjallaði við strákanna í útvarpsþætti Fótbolta.net á laugardag.

„Það kemur okkur á óvart, við erum eiginlega í sjokki að Íslandi ætli að ráða Hamren - við skiljum það ekki," sagði Laul.

„Ef við talið við sænska stuðningsmenn þá munu þeir segja ykkur að loka landamærunum, verjið eyjuna frá Hamren. Kallið í herinn, vekið víkingana, gerið eitthvað. Þeir skilja ekki af hverju Ísland er að taka Hamren eftir það sem gerðist hjá Svíþjóð. En þetta er álit stuðningsmannanna."

„Sérfræðingar, leikmenn og þjálfarar í Svíþjóð myndu segja ykkur að hann væri vonandi búinn að læra eitthvað. Hann er ekki hálfviti, hann hlýtur að hafa lært eitthvað."

Já, það er spurning Hamren hafi lært eitthvað um það hvernig það er að vera landsliðsþjálfari. Það hlýtur að vera.

En hvernig er hann sem þjálfari almennt, hvernig persóna er Erik Hamren? Fótbolti.net hafði samband við Atla Svein Þórarinsson, sem lék undir stjórn Hamren hjá Örgryte í Svíþjóð. Hamren gerði Örgyte að sænskum bikarmeisturum í fyrsta og eina skiptið árið 2000.

„Hann er mjög góður þjálfari," segir Atli Sveinn við Fótbolta.net í dag, aðspurður út í Hamren.

„Hann er virkilega flottur karakter og ég hef ekkert nema gott um hann að segja."

Hamren, sem er 61 árs að aldri, er með flotta ferilskrá. Auk þess að vinna sænska bikarinn með Örgryte þá vann hann bikarinn í tvígang með AIK. Hann vann tvo Noregsmeistaratitla með Rosenborg, 2009 og 2010, og gerði Álaborg að meisturum óvænt í Danmörku 2008.

Hann tók svo við sænska landsliðinu árið 2009 og kom liðinu á Evrópumót 2012 og 2016.

Síðan hann hætti með Svíþjóð 2016 hefur hann starfað sem ráðgjafi hjá Örgryte og yfirmaður knattspyrnumála hjá Malmelodi Sundowns í Suður-Afríku.

„Munu alltaf gagnrýna landsliðsþjálfarann gríðarlega hart"
Þegar Hamren var búinn að vera um nokkurt skeið í starfi landsliðsþjálfara Svía þá var hann orðinn mjög óvinsæll hjá fjölmiðlamönnum. Atli segir að sænskir fjölmiðlar séu mjög gagnrýnir á eigin landsliðsþjálfara og bendir á Lars Lagerback sem dæmi.

„Fjölmiðlamenningin í Svíþjóð er rosalega ólík því sem er hérna á Íslandi. Þeir eru mikið í æsifréttamennsku, flenni fyrirsögnum og að hleypa öllu upp."

„Þegar ég var þarna úti voru Lars og Tommy (Söderberg) með sænska landsliðið og þá voru fjölmiðlarnir yfirgengilega neikvæðnir í garð Lars og Tommy. Það var ekkert eðlilegt, allt sem landsliðsþjálfararnir gerðu var ömurlegt að þeirra mati. Menn voru fegnir þegar þeir hættu. En þegar Lars byrjaði að ná árangri aftur þá virtust Svíarnir hafa gleymt því hvað þeim fannst um Lars á sínum tíma."

Hamren var gagnrýndur í Svíþjóð fyrir að byggja liðið í kringum Zlatan Ibrahimovic, stærstu stjörnu liðsins. Hann treysti gríðarlega mikið á Zlatan.

„Það er spes að vera gagnrýna hann fyrir að byggja liðið í kringum Zlatan. Ég held að það sé erfitt að finna einhvern einn þjálfara sem er með leikmann eins og Zlatan og ætlar ekki að byggja liðið sitt í kringum hann."

„Fjölmiðlarnir í Svíþjóð eru þannig að þeir munu alltaf gagnrýna eigin landsliðsþjálfara gríðarlegt hart, og jafnvel ósanngjarnt," segir Atli Sveinn, en hann telur að Hamren sé kannski ekki endilega jafn-óvinsæll hjá Svíum almennt og hann er hjá fjölmiðlamönnum.

Heimir Hallgríms náði mögnuðum árangri með Ísland og kom liðinu á EM, með Lars, og HM með Helga Kolviðssyni. Atli telur að Hamren sé flottur kostur í starfið, þó það verði auðvitað erfitt að koma á eftir Heimi.

„Sama hver tekur við, þá verður ótrúlega erfitt að jafna árangurinn hjá Heimi, en þetta er góður þjálfari og flott persóna. Þegar ég var hjá honum þá var hann með hæfilega mikinn aga og menn báru virðingu fyrir honum. Þegar eitthvað kom upp á þá var tekið á því en þetta er líka náungi sem hægt er að spjalla við," sagði Atli Sveinn að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner