mán 06. september 2021 23:15
Ívan Guðjón Baldursson
Laporta: La Liga samþykkti ekki samning Messi
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
Joan Laporta, forseti Barcelona, gaf ansi umdeilt viðtal frá sér fyrr í kvöld þar sem hann ræddi Lionel Messi, Griezmann, PSG og Ofurdeildina meðal annars.

Laporta segir spænsku deildina, La Liga, hafa komið í veg fyrir að Messi héldi áfram að spila með Barcelona og segir Ofurdeildina enn vera í fullu fjöri.

„Við náðum samkomulagi við Leo en á endanum var það La Liga sem samþykkti ekki samninginn. Ég hef ekki rætt við Messi síðan hann fór en við stöndum í ævilangri þakkarskuld við hann. Messi mun alltaf vera Barca," sagði Laporta.

„Ofurdeildin er enn sprelllifandi. Pressan frá ensku félögunum er tilgangslaus, þau eru samningsbundin Ofurdeildinni þegar hún fer af stað. UEFA getur ekki gert neitt til að stöðva keppnina ef hún verður samþykkt af Evrópudómstólnum.

„PSG hafa brotið fjárlög FFP í mörg ár og allir vita af því, þar á meðal UEFA. Af hverju ekki að styðja við Ofurdeildina? Þar munu allir þurfa að fara eftir reglum!"


Barcelona hefur ekki gengið sérlega vel á leikmannamarkaðinum en Laporta fullvissar um að það verði nóg til á næsta ári.

„Samuel Umtiti og aðrir leikmenn aðalliðsins hafa samþykkt að taka á sig launalækkun. Á næsta tímabili getum við keypt dýrari leikmenn. Haaland eða Messi? Ég vil ekki loka á neitt, það er aldrei að vita."

Að lokum var Laporta spurður út í Antoine Griezmann sem er kominn aftur til Atletico Madrid fyrir talsvert lægri upphæð en hann var keyptur til Barca fyrir.

„Við bjuggumst við meiru af Griezmann en hegðun hans hefur alltaf verið til sóma. Hann er frábær leikmaður sem hentaði ekki fyrir leikstíl Barca."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner