mán 06. september 2021 16:21
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Þær verða að taka ákvörðun sem þær telja sem besta fyrir sig"
Icelandair
Elín Metta Jensen.
Elín Metta Jensen.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Agla María Albertsdóttir.
Agla María Albertsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það hefur mikið verið ritað og enn meira rætt um möguleikann á því að Elín Metta Jensen, leikmaður Vals, fari í atvinnumennsku eftir að hafa verið einn allra besti leikmaður Pepsi Max-deildarinnar undanfarin ár.

Elín er 26 ára sóknarkona sem hefur raðað inn mörkum undanfarin tímabil. Elín er í landsliðshópnum sem kemur saman eftir rúka viku og mætir í kjölfarið liði Hollands í undankeppni HM.

Landsliðsþjálfarinn Þorsteinn Halldórsson var spurður út í Elínu á fréttamannafundi í dag.

Ef þú ert spurður, hveturu leikmenn til að fara erlendis og helduru að það væri gott skref fyrir hana að gera það á þessum tímapunkti?

„Það er alveg sama hvar þú ert í fótboltaheiminum að þegar þú ert orðinn bestur eða einn af bestu leikmönnum í deildinni sem þú ert í og þú vilt ná langt, þá þarftu hugsanlega að taka einhver skref til að verða ennþá betri. Ég í sjálfu sér hvet þær ekki til þess, þær verða að taka ákvörðun sem þær telja sem besta fyrir sig."

„Ef þú ert toppleikmaður í íslensku deildinni og vilt ná lengra, vilt verða betri, þá er eðlilega næsta skref fyrir þig að spila erfiðari leiki með betri leikmönnum og á móti betri leikmönnum. Það er bara ákvörðun og þankagangur sem leikmenn þurfa að ganga í gegnum."

„Auðvitað er betra, ef leikmenn eru að fara erlendis, að þeir fari í góð lið og fá að spila. Það er svolítið grundvallaratriði líka,"
sagði Þorsteinn.

Það hefur einnig verið ákveðin umræða um Öglu Maríu Albertsdóttur hjá Breiðabliki og hvort hún fari út í atvinnumennsku eftir tímabilið.

Fyrr á fundinum hafði Þorsteinn sagt eftirfarandi:

„Það getur alveg tekið tíma að koma sér inn í hlutina (hjá nýju félagi), að fara inn í ennþá meira samkeppnis umhverfi heldur en er kannski fyrir þær hérna heima. Þar voru þær kannski orðnar bestar í liðinu, voru alltaf í liðinu og þurftu ekki að hafa áhyggjur af neinu svoleiðis."

„Þær sem brjótast í gegn og spila reglulega munu klárlega kom til með að bæta sig eins og þú gerir alltaf í góðu og miklu samkeppnis umhverfi."
Athugasemdir
banner