þri 06. september 2022 14:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Jón Þór fór vel yfir fjórföldu skiptinguna - „Þeir munu koma til baka eftir þetta"
Jón Þór Hauksson
Jón Þór Hauksson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, setti allavega Íslandsmet og mögulega heimsmet þegar hann hlóð í fjórfalda breytingu í fyrri hálfleik þegar ÍA tók á móti KR í Bestu deildinni.

Jón Þór tók þá Jón Gísla Eyland Gíslason, Hauk Andra Haraldsson, Árna Salvar Heimisson og Christian Köhler alla af velli á 38. mínútu. Inn komu þeir Oliver Stefánnson, Wout Droste, Benedikt Warén og Hlynur Sævar Jónsson.

Lestu um leikinn: ÍA 4 -  4 KR

Staðan í leiknum var á þessum tímapunkti 1-3 fyrir KR og ÍA nýbúið að minnka muninn. Skiptingin hafði verið í undirbúningi og klárlega hægt að horfa í hana sem viðbrögð við stöðunni 0-3. Jón Gísli var nýbúinn að leggja upp mark fyrir ÍA.

Jón Þór var spurður út í skiptinguna í viðtali við Fótbolta.net eftir leikinn.

„Nei nei og ég ætla að vona að maður þurfi ekki að beita því oft. En auðvitað blanda af því, eins og ég sagði fyrr í viðtalinu, mistök hvernig við komum inn í þennan leik og ég tek það á mig og við urðum að bregðast við því."

„Það breytti miklu að fá t.d. Hlyn inn á miðjuna, að hjálpa Steinari í þeirri vinnu sem þar var. KR-ingar eru auðvitað með líkamlega sterkt lið, sterkir í föstum leikatriðum og fyrirgjöfum. Þeir eru það lið sem gefur mest fyrir í deildinni. Við vorum í smá basli með það og þeir eru auðvitað fastir fyrir inn á miðjunni og svo í þessu kantspili. Við urðum að bregðast við því og gerðum það gríðarlega vel."

„Þetta er blanda af því og svo líka að koma með einhvern faktor inn og aðeins að hrista upp í liðinu. Sem betur fer tókst það,"
sagði Jón Þór sem er meðvitaður um að hann tók unga stráka af velli. Jón Gísli er fæddur árið 2002, Árni Salvar árið 2003 og Haukur Andri árið 2005.

„Þetta eru ungir strákar og á engan hátt er við þá að sakast að þessu sinni. Ég þarf að taka þetta á mig og það er mjög erfitt að þurfa að taka þá út af í þessari stöðu. En þetta eru andlega sterkir strákar og þeir munu koma til baka eftir þetta. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að við munum hjálpa þeim að koma til baka með það. Við dæmum þá á engan hátt af þessu, þeir hafa komið frábærlega inn í okkar lið og tekið þátt í þessum breytingum hjá okkur. Þeir hafa átt stóran þátt í því að við náðum í þessa sigra (í síðustu tveimur leikjum á undan). Það er bara áfram gakk hjá þeim og okkur öllum," sagði Jón Þór.

ÍA hefur nú náð í sjö stig úr síðustu þremur leikjum og er einu stigi á FH í baráttunni um öruggt sæti.
Jón Þór: Þarf að taka það á mig að liðið var ekki tilbúið í leikinn
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner