þri 06. september 2022 11:15
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Tvímælalaust einn af betri markmönnum Íslands"
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Markvörðurinn Frederik Schram hefur staðið sig frábærlega með Val eftir að hann gekk til liðs við félagið í lok júní frá Lyngby í Danmörku.

Hann átti enn einn góða leikinn í gær þegar Valur lék gegn Breiðabliki. Sérstaklega varði hann einu sinni vel frá Kristni Steindórssyni.

Lestu um leikinn: Breiðablik 1 -  0 Valur

Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, var spurður út í innkomu Frederiks í viðtali á Stöð 2 Sport eftir leikinn í gær.

„Hann er búinn að standa sig feiknarlega vel, ekki nokkur vafi á því og búinn að verja mjög vel. Hann er tvímælalaust einn af betri markmönnum Íslands," sagði Óli.

Móðir Frederik er íslensk og faðir hans danskur. Hann lék á sínum tíma fyrir íslensku yngri landsliðin og var svo valinn í A-landsliðið í fyrsta sinn árið 2017. Til þessa hefur hann spilað fimm landsleiki.

Áður en hann gekk í raðir Vals hafði hann alla tíð búið í Danmörku.
Athugasemdir
banner
banner
banner