Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   þri 06. október 2020 21:07
Victor Pálsson
Formaður Hauka svarar Þorsteini: Taktlaus markaðssetning hjá þjálfara Breiðabliks
Sveindís Jane.
Sveindís Jane.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þorsteinn Halldórsson.
Þorsteinn Halldórsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Halldór Jón Garðarsson, formaður knattspyrnudeildar Hauka.
Halldór Jón Garðarsson, formaður knattspyrnudeildar Hauka.
Mynd: Hulda Margrét
Halldór Jón Garðarsson, formaður knattspyrnudeildar Hauka, hefur svarað ummælum Þorsteins Halldórssonar, þjálfara Breiðabliks, sem hann lét frá sér á dögunum um leikmanninn efnilega, Sveindísi Jane Jónsdóttur.

Sveindís er ein efnilegasta knattspyrnukona landsins en hún spilar með Blikum á láni frá uppeldisfélagi sínu Keflavík þar sem hún vakti verðskuldaða athygli. Sveindís er nú hluti af íslenska landsliðshópnum.

Keflavík er búið að tryggja sér sæti í Pepsi Max-deild kvenna á nýjan leik en hvort Sveindís leiki fyrir félagið á næstu leiktíð er ekki víst.

Þorsteinn sagði nýlega að það hefði verið betra fyrir Sveindísi að yfirgefa Keflavík fyrr, sem fór ekki vel í alla. Breiðablik er í dag sterkasta lið landsins ef litið er á töfluna í Pepsi Max-deildinni.

„Það eina sem ég sé núna er að hún átti að vera löngu búin að fara í sterkara lið. Það er leiðinlegt að segja það við Keflavík en hún hefði höndlað þetta skref miklu fyrr, hún hefði mátt koma til okkar fyrir einu eða tveimur árum. Hún hefði þurft sterkara æfingaumhverfi fyrr, það er ekki hægt að gagnrýna neitt. Keflavík á allt í henni, við vorum ekki að finna hana upp. Ég spyr mig að því hvar hún væri stödd ef hún hefði komið fyrr til okkar eða eitthvert annað í sterkara umhverfi. Það kæmi mér ekkert á óvart ef erlend félög reyna að fá hana núna, það er spurning hvaða skref hún vill taka. Hversu hratt hún vill taka skrefið, hvort hún fái lið sem hún vill fara til. Hún þarf að gefa sér tíma í að taka ákvörðun, það er ljóst að lið munu bera víurnar í hana," sagði Þorsteinn í samtali við 433.is.

Breiðablik sagði ummælin tekin úr samhengi.

„Það sauð svolítið á okkur, að hann skyldi skella þessu svona fram," sagði Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Keflavíkur, í viðtali eftir 3-1 sigur á Gróttu þann 4. október síðastliðinn.

Halldór er á sama máli og tók ekki vel í ummæli Þorsteins og kallar þau taktlaus. Þetta kemur fram í pistli hans á Facebook-síðu Hauka í kvöld.

Af Facebook síðu Hauka:
Ummæli Þorsteins Halldórssonar, þjálfara meistaraflokks kvenna hjá Breiðablik, hafa vakið töluverða athygli í knattspyrnuheiminum þar sem hann sagði eftirfarandi um Sveindísi Jane Jónsdóttur, sem spilar sem láns leikmaður hjá Breiðablik en hún er uppalin hjá Keflavík og samningsbundin því félagi.

„Það eina sem ég sé núna er að hún átti að vera löngu búin að fara í sterkara lið. Það er leiðinlegt að segja það við Keflavík en hún hefði höndlað þetta skref miklu fyrr, hún hefði mátt koma til okkar fyrir einu eða tveimur árum,“ sagði Þorsteinn í viðtali við DV.

Tilgangurinn með þessum ummælum virðist vera markaðssetning á kvennaliði Breiðabliks þar sem markmiðið er að fá enn fleiri efnilegar stúlkur til að ganga til liðs við félagið. Stelpur sem spila með „lakari“ liðum í Pepsí Max deildinni, Lengjudeildinni eða í 2. deildinni. Stelpur sem eru í stórum hlutverkum í sínum liðum, fá að njóta sín, takast á við mótlæti, að þroskast og þróast sem leikmenn. Það kemur ávallt að þeim tímapunkti að efnilegir leikmenn taka næsta skref á sínum ferli, hvort sem það er að fara í sterkara lið hér á landi eða beint út í atvinnumennsku.

Það er fremur líklegt að ef Sveindís hefði farið fyrr til Breiðabliks þá væri hún nú með minni reynslu af því að spila í meistaraflokki – reynslu sem hún öðlaðist hjá sínu uppeldisfélagi, Keflavík, sem er mögulega ástæðan fyrir því að hún er komin í A landslið kvenna.

Hins vegar er þessi markaðssetning þjálfara Breiðablik taktlaus þar sem tilraunin virðist vera sú að reyna að fá 15 til 16 ára stúlkur til að yfirgefa sín uppeldisfélög – það er verið að grafa undan þeirri uppbyggingu sem á sér stað í fjölmörgum félögum.

Halldór Jón Garðarsson

Formaður knattspyrnudeildar Hauka

Sjá einnig:
Gunnar Magnús: Það sauð svolítið á okkur
Athugasemdir
banner
banner
banner