banner
   mið 06. október 2021 20:37
Brynjar Ingi Erluson
Kristall ætlar sér út í atvinnumennsku - „Ég var að spila of aftarlega hjá FCK"
Kristall Máni Ingason
Kristall Máni Ingason
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kristall með Íslandsmeistarabikarinn
Kristall með Íslandsmeistarabikarinn
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kristall Máni Ingason, leikmaður Víkings, var í viðtali í fréttatíma Stöðvar 2 í kvöld, en þar fór hann yfir möguleikana á að halda út í atvinnumennsku og tíma hans hjá danska félaginu FCK.

Kristall kom til Víkings á láni frá FCK í maí á síðasta ári og skoraði þá eitt mark í 15 deildarleikjum.

Víkingur keypti hann svo frá FCK í janúar á þessu ári og hefur hann svo sannarlega verið að skila sínu. Kristall hefur átt frábært tímabil með Víkingum er liðið varð Íslandsmeistari á dögunum og þá gerði hann þrennu í undanúrslitum bikarsins gegn Vestra og skaut liðinu í úrslit.

Hann væri vel til í að skoða þann möguleika að halda aftur út í atvinnumennsku en var þó ekkert sérlega sáttur með hversu aftarlega hann var að spila hjá FCK.

„Ég var eiginlega að spila aðeins of aftarlega úti en ég vildi koma heim og prófa mig framar. Ég vil meina að ég eigi heima fremstur og ég held ég sé búinn að sýna það að ég á að vera framarlega," sagði Kristall í fréttatíma Stöðvar 2.

Spilaði hægri bakvörð hjá FCK

Þegar Fótbolti.net ræddi við Kristal í desember árið 2019 þá var hann að spila hægri bakvörð fyrir ungingalið FCK.

„Ég byrjaði sem hægri og vinstri kantur hjá u19. Í síðustu átta leikjum hef ég leikið í hægri bakverðinum."

„Mér finnst það jafn skemmtilegt og að vera á kantinum. Ég fæ boltann allavega miklu oftar en þegar ég er á kantinum."

„Mér finnst samt skemmtilegast að vera frammi ef ég á að vera alveg hreinskilinn."

„Ég er búinn að leggja upp nokkur mörk með U19 sem bakvörður. Eins og staðan er núna er horft á mig sem hægri bakvörð en maður veit ekki hvernig hlutirnir verða þegar líður á tímabilið - ég gæti þess vegna spilað aftur sem framherji þegar líður á tímabilið,"
sagði Kristall í viðtali við Sæbjörn Steinke í desember 2019.

Setur stefnuna á að fara út í atvinnumennsku

Markmið hans er að halda aftur út í atvinnumennsku en tekur þó fram að hann sé afar ánægður í Víkinni og vonast eftir því að landa bikarnum þann 16. október er liðið mætir ÍA.

„Auðvitað langar manni út. Ef það býðst eitthvað almenninlegt þá myndi ég skoða það, en mér líður mjög vel í Víkinni og við erum Íslandsmeistarar og vonandi bikarmeistarar þá kitlar alveg að vera áfram," sagði hann í lokin.


Athugasemdir
banner
banner
banner