Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 06. nóvember 2020 12:20
Elvar Geir Magnússon
Í beinni
Í beinni: Landsliðshópur Íslands kynntur 13:15
Icelandair
Erik Hamren og Freyr Alexandersson landsliðsþjálfarar.
Erik Hamren og Freyr Alexandersson landsliðsþjálfarar.
Mynd: Fótbolti.net
Íslenski landsliðshópurinn sem mætir Ungverjalandi í hreinum úrslitaleik um sæti á EM alls staðar verður opinberaður í dag föstudag klukkan 13:15.

Fréttamannafundurinn verður með öðru sniði en venja er, hann verður rafrænn fjarfundur en fylgst verður með í beinni textalýsingu í þessari frétt. Erik Hamren og Freyr Alexandersson eru báðir staddir erlendis.

Leikur Ungverjalands og Íslands verður í Búdapest þann 12. nóvember, á fimmtudegi. Á eftir koma svo útileikir gegn Danmörku og Englandi í Þjóðadeildinni, 15. og 18. nóvember.

Ísland mun undirbúa sig fyrir leikinn gegn Ungverjum í æfingabúðum í Ágsborg, hjá þýska úrvalsdeildarfélaginu Augsburg en Alfreð Finnbogason leikur með liðinu. Á sunnudag og mánudag fara leikmenn að tínast í æfingabúðirnar í Þýskalandi. Daginn fyrir leikinn gegn Ungverjalandi, þann 11. nóvember, verður flogið til Búdapest og æft á keppnisvellinum eins og venja er daginn fyrir leik.

Í BEINNI:
13:44
Fundi lokið

Þessum fréttamannafundi er lokið. Við þökkum þeim sem fylgdust með. Frekari fréttir koma inn á síðuna og í útvarpsþættinum á morgun verður hitað upp fyrir landsleikina, rætt við lykilmann, sérfræðing og rýnt í hópinn. X977 12-14 á morgun.

Við þökkum þeim sem fylgdust með

Eyða Breyta
13:42
Hamren segir að Danmörk og England hafi ákveðið forskot á Ísland þar sem þau leiki vináttulandsleiki á meðan Íslendingar mæti Ungverjum í þessum gríðarlega mikilvæga leik um að komast á EM.

Eyða Breyta
13:40
Erik Hamren spurður út í sína framtíð:

"Ég einbeiti mér bara að þessum leik og að komast á EM. Eftir það þá fer einbeitingin á Danmörku og England. Við vitum ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. Þetta er gríðarlega mikilvægt verkefni fyrir íslenskan fótbolta."

Eyða Breyta
13:39
Erik Hamren spurður út í Ísak Bergmann:

"Ég hef verið gríðarlega hrifinn af frammistöðu hans. Hann er bara 17 ára og mikið talað um það í fjölmiðlum að stór félög eru að skoða hann. Hans tími mun koma, það er klárt í mál. Hann er góður núna og verður enn betri í framtíðinni."

Eyða Breyta
13:38
Hamren segist ekki hafa áhyggjur af Kára og Alfreð sem hafa verið að glíma við meiðsli. Hann segist ekki vita hvort Jói Berg geti spilað með Burnley gegn Brighton í kvöld.

Eyða Breyta
13:36
Ragnar Sigurðsson meiddist gegn Danmörku í síðasta glugga og hefur verið frá í nokkurn tíma. Erik Hamren segist hafa talað við hann í gær og honum hafi liðið vel.

Eyða Breyta
13:34
Kristinn Páll Teitsson á Fréttablaðinu spyr af hverju hópurinn sé fámennari en síðast:

Erik: "Síðast bættum við leikmönnum við. Eftir fyrsta leikinn munum við sjá stöðuna á hópnum og mögulega bæta við mönnum."

Jón Dagur Þorsteinsson og Mikael Anderson gætu þá komið inn.

Eyða Breyta
13:32
Þá tekur Erik Hamren við orðinu

Erik: "Gaman að heyra í ykkur aftur. Það eru þrír mikilvægir leikir framundan. Það er flottur leikur framundan gegn Ungverjum, leikur sem við höfum lengi beðið eftir. Við viljum komast á EM. Það eru mikil gæði og mikil reynsla í hópnum okkar. Það er hungur og gott hugarfar."

Eyða Breyta
13:31
Sindri Sverrisson, blaðamaður Vísis, spyr hvernig leikmennirnir sem eru hér á Íslandi hafa æft?

Freyr: "Þeir hafa æft eftir reglugerðum og eins vel og kostur er á. Þetta eru fullorðnir menn með mikla reynslu og eru agaðir í því sem þeir gera. Þetta eru að sjálfsögðu ekki kjöraðstæður. Þeir koma til okkar til Þýskalands í fínu standi."

Eyða Breyta
13:29
Freyr skoðar enska landsliðshópinn örsnöggt: "Það vekur kannski mesta athygli að Íslandsvinurinn Phil Foden er í hópnum."

Eyða Breyta
13:27
Freyr hrósar Hjulmand
"Það verður gaman að takast á við Danmörku. Ég vil hrósa Kasper Hjulmand þjálfara og hans teymi. Þeir hafa náð að koma sínu handbragði hratt og örugglega á liðið og þeir eru á góðum stað."

Eyða Breyta
13:26
Freyr: "Ungverska liðinu hefur vegnað vel að undanförnu og kemur inn í þetta verkefni með mikið sjálfstraust."

Í síðustu fimm landsleikjum hefur Ungverjaland unnið þrjá leiki, gert eitt jafntefli og tapað einum leik. Liðið er með sjö stig í Þjóðadeildarriðlinum sínum.

Freyr: "Þetta er ofskaplega kraftmikið fótboltalið. Þeir eru líkamlega sterkir. Taktískt eru þeir erfiðir viðureignar og þá hafa þeir mikil einstaklingsgæði innan sinna raða. Þar má nefna Willi Orban og Peter Gulacsi í Leipzig og Dominik Szobozlai hjá Red Bull Zalsburg"

Eyða Breyta
13:23
Þetta er síðasti glugginn til að safna stigum fyrir dráttinn í undankeppni HM 2022. Þess vegna er þessi gluggi svona gríðarlega mikilvægur segir Freyr.

Eyða Breyta
13:22
Freyr: "Það er einn leikur eftir í átt að EM. Ýmislegt hefur gengið á í undirbúningnum. Nú kemur að leik þar sem allt er undir, þetta er leikur sem allir elska að spila og verður á þessum stórkostlega leikvangi í Ungverjalandi. Það verða um 20 þúsund áhorfendur á leiknum og það er stórkostlegt að vera með fólk í stúkunum."

Eyða Breyta
13:20
Ómar Smárason fjölmiðlafulltrúi KSÍ stýrir fundinum og hann gefur Frey Alexanderssyni aðstoðarlandsliðsþjálfara orðið.

Freyr talar um stærsta undirbúning sem hefur verið farið í fyrir utan stórmótið. Stórt og mikið verkefni hvað varðar ferðalög og utanumhald.

Hamren og Freyr eru mættir til Augsburg þar sem undirbúningur fer fram.

"Staðsetningin er hentug og flugsamgöngur nokkuð góðar. Þeir hjá Augsburg voru jákvæðir í að taka á móti okkur. Alfreð Finnbogason á þátt í því og hefur verið okkur innan handar."

Eyða Breyta
13:16
Hamren velur minni hóp en í síðasta landsliðsverkefni en þeir Jón Dagur Þorsteinsson og Mikael Neville Anderson detta út. Búast má við að þeir verði með U21 landsliðinu sem á mikilvægan leik gegn Ítalíu á fimmtudaginn í baráttunni um sæti á EM.

Allir leikmenn eru heilir heilsu og klárir í stórleikinn við Ungverja.

Eyða Breyta
13:15
Landsliðshópurinn hefur verið opinberaður.

Hannes Þór Halldórsson | Valur | 72 leikir
Rúnar Alex Rúnarsson | Arsenal | 6 leikir
Ögmundur Kristinsson | Olympiacos | 16 leikir
Birkir Már Sævarsson | Valur | 93 leikir, 2 mörk
Hjörtur Hermannsson | Bröndby | 17 leikir, 1 mark
Ragnar Sigurðsson | FC Köbenhavn | 96 leikir, 5 mörk
Sverrir Ingi Ingason | PAOK | 33 leikir, 3 mörk
Kári Árnason | Víkingur R. | 85 leikir, 6 mörk
Hólmar Örn Eyjólfsson | Rosenborg | 17 leikir, 2 mörk
Ari Freyr Skúlason | KV Oostende | 74 leikir
Hörður Björgvin Magnússon | CSKA Moscow | 32 leikir, 2 mörk
Guðlaugur Victor Pálsson | SV Darmstadt 98 | 20 leikir
Arnór Sigurðsson | CSKA Moscow | 10 leikir, 1 mark
Arnór Ingvi Traustason | Malmö | 37 leikir, 5 mörk
Birkir Bjarnason | Brescia | 89 leikir, 13 mörk
Rúnar Már Sigurjónsson | Astana | 28 leikir, 1 mark
Gylfi Sigurðsson | Everton | 76 leikir, 24 mörk
Jóhann Berg Guðmundsson | Burnley | 76 leikir, 8 mörk
Aron Einar Gunnarsson | Al Arabi | 89 leikir, 2 mörk
Viðar Örn Kjartansson | Valerenga | 27 leikir, 3 mörk
Jón Daði Böðvarsson | Millwall | 52 leikir, 3 mörk
Kolbeinn Sigþórsson | AIK | 59 leikir, 26 mörk
Albert Guðmundsson | AZ Alkmaar | 15 leikir, 3 mörk
Alfreð Finnbogason | Augsburg | 59 leikir, 15 mörk

Eyða Breyta
13:14
Fundurinn er að hefjast

Eyða Breyta
12:56
Ungverjaland og Ísland hafa mæst ellefu sinnum hjá A-landsliði karla og Ísland hefur aðeins unnið þrjá af þessum leikjum.

Eyða Breyta
12:49
Ísland er í 39. sæti á heimslista FIFA en Ungverjaland er í 47. sæti. Fyrir áhugasama þá má sjá ungverska hópinn með því að smella hérna.

Eyða Breyta
12:25
Leikið á geggjuðum velli

Leikurinn gegn Ungverjum fer fram á Puskas Arena leikvangnum en um er að ræða mannvirki sem er aðeins eins árs gamalt.

Þessi glænýi völlur er skírður í höfuðið á goðsögninni Ferenc Puskas sem var um tíma einn besti fótboltamaður heims og vann marga titla með Real Madrid.

Leikvangurinn tekur 67.215 áhorfendur en um 20 þúsund áhorfendur verða leyfðir á leiknum.

Smelltu hér til sjá myndir af vellinum

Eyða Breyta
12:22
Undirbúningurinn tekinn í Þýskalandi

Fundurinn í dag verður í gegnum fjarfundarbúnað. Hamren og Freyr báðir erlendis. Í Svíþjóð og í Katar, held ég.

Hópurinn hittist svo í Augsburg í Þýskalandi um helgina en þar verður allur undirbúningur þar til flogið verður til hinnar stórskemmtilegu borgar Búdapest daginn fyrir leik.

Eyða Breyta
11:23
Jói Berg með í kvöld?
Kálfameiðslin halda áfram að plaga Jóhann Berg Guðmundsson og hann var ekki með Burnley í síðasta leik. Hann er mögulega með Burnley í leik gegn Brighton í kvöld.

Við vitum allavega ekki betur en að hann eigi að vera klár í Ungverjaleikinn og að staðan almennt á leikmannahópnum sé fín.

Birkir Bjarnason er í frystikistunni hjá Brescia en hann lék alla þrjá leiki Íslands í októberglugganum og er í fínu standi samkvæmt okkar upplýsingum.

Eyða Breyta
11:14
Gamla bandið

Það verður að segjast eins og er að ekki er búist við því að margar hökur fari í gólfið þegar landsliðshópurinn verður kynntur. Gamla bandið ætti allt að vera samankomið.

Þar sem um þrjá leiki er að ræða í þessum landsliðsglugga má fastlega reikna með því að Erik Hamren velji stóran hóp í verkefnið.

Eyða Breyta
11:11
Góðan og gleðilegan daginn. Hér munum við fylgjast með því þegar Erik Hamren tilkynnir íslenska landsliðshópinn fyrir nóvemberleikina. Fréttamannafundur hefst klukkan 13:15.

Strákarnir okkar mæta Danmörku og Englandi á útivöllum í Þjóðadeildinni en aðalmálið er Ungverjaland - Ísland á fimmtudagskvöldið næsta í Búdapest.

Þar verður leikið til þrautar og sigurliðið verður á EM á næsta ári! Vonandi komast okkar menn á þriðja stórmótið í röð.

Eyða Breyta
Athugasemdir
banner
banner