sun 06. nóvember 2022 07:00
Jóhann Þór Hólmgrímsson
Bale kom, sá og sigraði er LAFC varð meistari
Mynd: Getty Images

LAFC varð meistari í bandarísku MLS deildinni í gærkvöldi þegar liðið lagði Philadelphia Union í úrslitaleiknum.


Gareth Bale fyrrum leikmaður Tottenham og Real Madrid gekk til liðs við LAFC í vetur en hann missti af fyrstu tveimur leikjunum í úrslitakeppninni vegna meiðsla.

Staðan var 2-2 eftir venjulegan leiktíma svo grípa þurfti til framlengingar. Bale kom inn á snemma í framlengingunni fyrir Carlos Vela en útlitið varð svart fyrir LAFC þar sem liðið var manni færri frá 116. mínútu og Philadelphia komst yfir þegar fjórar mínútur voru komnar framyfir venjulegan leiktíma.

LAFC gafst ekki upp og Bale tryggði liðinu vítaspyrnukeppni með marki þegar átta mínútur voru komnar framyfir. Að lokum vann LAFC 3-0 sigur í vítaspyrnukeppninni og sinn fyrsta MLS sigur.

„Það er alltaf gaman að skora í úrslitaleik, ég hef gert það áður. Þetta er stórt, mikilvægt fyrir félagið og stuðningsmenn. Við vorum manni færri og það leit ekki út fyrir að við vorum að fara gera eitthvað. Veit ekki hvar ég set þennan leik en þetta er frábær tilfinning," sagði Bale eftir leikinn.


Athugasemdir
banner