banner
   þri 07. janúar 2020 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
Hans Tilkowski er látinn - Fékk Wembley markið fræga á sig
Mynd: Getty Images
Hans Tilkowski lést í gær 84 ára að aldri. Hann var aðalmarkvörður Borussia Dortmund og vann sér helst til frægðar að fá eitt af frægustu mörkum knattspyrnusögunnar á sig.

Tilkowski varði einnig mark Eintracht Frankfurt á sínum tíma og stýrði félögum á borð við Werder Bremen, FC Nurnberg og AEK Aþenu á stjóraferlinum.

Markið fræga sem hann fékk á sig var skorað í úrslitaleik HM 1966, einu heimsmeistarakeppninni sem Englendingum hefur tekist að sigra.

Tilkowski var á milli stanga landsliðs Vestur-Þýskalands í úrslitaleiknum og var staðan 2-2 svo grípa þurfti til framlengingar. Í framlengingunni skoraði Geoff Hurst með skoti sem fór í slánna og beint niður, en óljóst er hvort knötturinn hafi farið yfir marklínuna eða ekki.

Línuvörðurinn frá Aserbaídsjan dæmdi markið sem gilt, enda engin marklínutækni til að styðjast við, og Englendingar stóðu að lokum uppi sem sigurvegarar, 4-2.
Athugasemdir
banner
banner
banner