Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
banner
   fim 07. maí 2020 08:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Varaður við stórslysi en valdi samt að fara til Sunderland
Altidore átti ekki góðan tíma í Sunderland.
Altidore átti ekki góðan tíma í Sunderland.
Mynd: Getty Images
Altidore er í dag hjá Toronto í MLS-deildinni.
Altidore er í dag hjá Toronto í MLS-deildinni.
Mynd: Getty Images
Bandaríski sóknarmaðurinn Jozy Altidore segist hafa vitað það frá byrjun að skipti sín til Sunderland árið 2013 yrðu ekki farsæl.

Altidore skoraði 51 mark á tveimur árum með AZ Alkmaar og var í kjölfarið seldur til Sunderland fyrir 9 milljónir punda. Þar gerði hann það ekki alveg eins gott. Altidore náði aðeins að skora þrjú mörk í 52 leikjum áður en hann fór til Toronto FC í MLS-deildinni þar sem hann er enn í dag.

„Mér leið ekki vel með þetta, tímasetningin var ekki rétt," sagði Altidore í viðtali við VICE. „Sunderland var ekki besta félagið sem ég talaði við, ég átti einnig samræður við önnur stór félög."

Háttsettir aðilar hjá AZ sögðu honum að fara ekki til Sunderland þrátt fyrir að tilboð félagsins væri mjög gott. „Mér var sagt að Sunderland hentaði ekki mínum leikstíl. Menn voru mjög hreinskilnir með það og þeir sögðu að það yrði stórslys ef ég færi til Sunderland þrátt fyrir að tilboð þeirra væri mjög gott."

„Faðir minn vildi hins vegar mikið að ég færi til Englands vegna þess að samningurinn var mjög góður. Hvað ef ég meiddist hjá AZ? Ef það gerðist þá gæti ég misst af svona samningi. Þetta var erfið og tilfinningaþrungin ákvörðun, en ég valdi Sunderland."

„Umboðsmenn mínir og faðir minn hugsuðu um fjárhagslegu hliðina. Með því að fara til Sunderland var framtíð mín örugg. Ég var ungur maður. Ef ég vissi það sem ég veit í dag þá hefði ég tekið aðra ákvörðun."

Hjá Toronto hefur Altidore, sem er þrítugur að aldri, glímt við meiðsli en þrátt fyrir það náð að skora 72 mörk í 141 leik. Hann myndi skoða að fara aftur til Evrópu, en bara ef fullkomið tækifæri kemur upp.

Þess má geta að Sunderland er ekki lengur í ensku úrvalsdeildinni. Félagið er núna í C-deild Englands.
Athugasemdir
banner
banner
banner