sun 07. júní 2020 08:00
Ívan Guðjón Baldursson
Ighalo lifir drauminn: Allt var gegn mér - Hélt þetta væri grín
Ighalo er búinn að skora fjögur mörk og leggja eitt upp í átta leikjum með Man Utd.
Ighalo er búinn að skora fjögur mörk og leggja eitt upp í átta leikjum með Man Utd.
Mynd: Getty Images
Manchester United krækti í Odion Ighalo að láni frá Shanghai Shenhua í vetur og framlengdi félagið lánssamninginn til janúar 2021 á dögunum.

Ighalo er spenntur fyrir dvöl sinni hjá Manchester United, en hann hefur verið stuðningsmaður félagsins alla sína ævi. Hann var gríðarlega hissa þegar hann heyrði af áhuga Rauðu djöflanna í vetur enda var hann þrítugur sóknarmaður í kínverska boltanum.

„Ég hélt þetta væri grín í fyrstu. Ég var að spila í Shanghai. Það var gegn mér. Myndi félag eins og Manchester United leita að sóknarmanni í kínversku deildinni? Aldurinn minn var gegn mér, faraldurinn í Kína var gegn mér. Ég sagði 'nei þetta er brandari'. Ég trúði þessu ekki fyrr en ég var lentur í Manchester," sagði Ighalo í samtali við Sky Sports.

„Svo óttaðist ég að samningurinn yrði ekki framlengdur. Shanghai vildi fá mig aftur því þeir vita hvað ég get gert og hafa mikla trú á mér. Þetta var erfitt en ég vil þakka þeim fyrir að samþykkja beiðni mína um að vera áfram hjá Manchester United og ég vil þakka Ole Gunnar Solskjær fyrir að berjast fyrir mig.

„Ekki allir draumar rætast en ég er að lifa drauminn. Þetta er frábært afrek fyrir mig og ég mun aldrei taka því sem gefnu að spila fyrir þetta félag. Ég er að verða 31 árs og bjóst ekki við að fá svona tækifæri á ferlinum."


Ighalo hefur verið að fylla í skarð Marcus Rashford sem er þó orðinn heill heilsu eftir Covid pásuna. Ighalo er ekki smeykur við samkeppnina og segist hlakka til að spila við hlið Rashford.

„Þetta er mjög spennandi. Það er allt annað að horfa á liðið að utanfrá og æfa með leikmönnunum. Pogba er kominn aftur, hann er að gera mjög vel, hann er sterkur og í góðu formi. Marcus er stórkostlegur, ótrúlega hæfileikaríkur leikmaður. Ég get ekki beðið eftir að spila með þeim.

„Bruno (Fernandes) er einn af þeim bestu sem ég hef spilað með. Ég spilaði með honum hjá Udinese og þá var hann mjög hæfileikaríkur en núna er hann á öðru stigi. Hann er enn að venjast enska boltanum og mun vera gríðarlega mikilvægur fyrir Manchester United."


Stuðningsmenn Man Utd hafa verið duglegir að lýsa yfir ánægju sinni með hugarfar og vinnuframlag Ighalo frá komu hans til félagsins.
Athugasemdir
banner
banner
banner