lau 07. júlí 2018 17:57
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pepsi-deildin: Stjarnan á toppinn - Markverðirnir frábærir í Eyjum
Stjarnan er á toppnum eftir sjö sigurleiki í röð.
Stjarnan er á toppnum eftir sjö sigurleiki í röð.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Halldór Páll átti stórleik og varði víti.
Halldór Páll átti stórleik og varði víti.
Mynd: Raggi Óla
Stjarnan komst á toppinn í Pepsi-deild karla með því að sigra botnlið Keflavíkur rétt í þessu. Stjarnan þurfti ekki að hafa mikið fyrir sigrinum. Niðurstaðan var markalaust jafntefli í hinum leiknum sem var að klárast í deildinni.

Stjarnan upp fyrir Val
Stjarnan er á rosalegu skriði í Pepsi-deildinni, unnið sjö leiki í röð. Þeir mættu botnliðinu í dag og það var aldrei spurning.

Guðmundur Steinn Hafsteinsson skoraði fyrsta mark leiksins eftir stundarfjórðung og stuttu síðar bætti Hilmar Árni Halldórsson við öðru marki. Þegar Hilmar skoraði sagði Ingimar Bjarni Sverrisson, okkar maður á vellinum, í textalýsingu sinni:

„Og markametsklúbburinn skelfur á beinunum! Guðjón kemst í gegn og leggur boltann út á Hilmar sem gat ekki annað en skorað, brekkan orðin fjandi brött hjá heimamönnum."

Hilmar Árni er kominn með 12 mörk í deildinni en markametið í efstu deild karla er 19 mörk.

Stjarnan sigldi sigrinum örugglega í land eftir mörkin tvö en náði ekki að bæta við fleiri mörkum. Lokatölur urðu 2-0 fyrir Stjörnuna sem kemur sér fyrir á toppnum.

Markverðirnir stálu senunni
Það voru tvö mörk skoruð suður með sjó en það var ekkert skorað í Vestmannaeyjum.

Þar mættust ÍBV og Breiðablik en þrátt fyrir markaleysi var leikurinn virkilega skemmtilegur. Báðir markverðir vörðu mjög vel á köflum en besta færi leiksins kom þegar lítið var eftir annað en uppbótartími. Breiðablik fékk vítaspyrnu en Halldór Páll Geirsson, markvörður ÍBV, varði frá Gísla Eyjólfssyni.

„HALLDÓR PÁLL GEIRSSON!!!!!!!! Hann ver þetta bara. Gísli með slappt víti en Dóri. Dóri sko er með nánast fullkominn leik hérna," sagði Hjalti Jóhannsson í beinni textalýsingu sagði Hjalti þegar Halldór varði vítið frá Gísla.


Hvað þýða þessi úrslit?
Stjarnan er komin á toppinn með 25 stig eins og Valur, en betri markatölu. Breiðablik er í þriðja sæti með 19 stig, ÍBV í áttunda sæti með 12 stig og Keflavík á botninum með þrjú stig.

Á mánudaginn klárast þessi umferð með leik Fylkis og Víkings.

Sjá einnig:
Pepsi-deildin: Tvö rauð og þrjú mörk í sigri FH
Athugasemdir
banner
banner
banner