sun 07. júlí 2019 21:08
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pepsi Max-deildin: HK vann baráttuna um Kópavog
Atli skoraði tvennu.
Atli skoraði tvennu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Flottur sigur hjá HK!
Flottur sigur hjá HK!
Mynd: Fótbolti.net - Ingunn Hallgrímsdóttir
Breiðablik 1 - 2 HK
0-1 Atli Arnarson ('42 )
0-2 Atli Arnarson ('60 )
1-2 Þórir Guðjónsson ('89 )
Lestu nánar um leikinn

HK gerði sér lítið fyrir og skellti nágrönnum sínum í Breiðablik í Pepsi Max-deildinni í kvöld. Ekki eitthvað sem margir sáu fyrir áður en leikurinn hófst

Fyrir leikinn var HK í fallsæti og Breiðablik í öðru sæti, sjö stigum frá toppliði KR. Blikar þurftu á sigri að halda til að missa ekki KR of langt frá sér.

Blikar stjórnuðu leiknum í fyrri hálfleik, en það voru gestirnir í HK sem komust yfir á 42. mínútu. Atli Arnarson skoraði þá eftir frábæra sendingu frá Björn Berg Bryde. ÞVERT GEGN GANGI LEIKSINS!!! Langur bolti frá BBB. Frábærlega gert hjá Atla!!! Erfiður skalli í teignum en nær að koma boltanum í netið. Gunnleifur hikaði. Gott hlaup af miðjunni og góður skalli," skrifaði Elvar Geir Magnússon í beinni textalýsingu á Fótbolta.net.

HK-ingar yfir í hálfleik, en Breiðablik hóf seinni hálfleikinn á þungri sókn. Inn fór boltinn hins vegar ekki hjá Blikum og fyrir það refsaði HK. Atli Arnarson skoraði aftur, í þetta skiptið með frákasti eftir skot sem Gunnleifur varði.

Þegar liðin mættust í Kórnum fyrr á tímabilinu komst HK í 2-0 en Blikar jöfnuðu í 2-2. Arnar Freyr í marki HK varði frábærlega frá Thomas Mikkelsen þegar rúmar 10 mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.

Breiðablik virtist fyrirmunað að skora, þangað til á 89. mínútu. Þá minnkaði varamaðurinn Þórir Guðjónsson muninn með sínu fyrsta marki í Pepsi Max-deildinni fyrir Breiðablik.

Blikar sóttu stíft síðustu mínútur leiksins, en HK náði að halda út. Magnaður sigur hjá HK og þeir eru með montréttinn í Kópavogi næstu daga.

KR er núna með sjö stiga forystu á Breiðablik, á toppi deildarinnar. HK er áfram í fallsæti, en með jafnmörg stig og Víkingur.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner