Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   þri 07. ágúst 2018 16:05
Magnús Már Einarsson
Álitsgjafar svara: Hvernig líst þér á Erik Hamren?
Icelandair
Erik Hamren verður næsti landsliðsþjálfari Íslands.
Erik Hamren verður næsti landsliðsþjálfari Íslands.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Erik Hamren verður á morgun kynntur sem nýr landsliðsþjálfari Íslands. Fótbolti.net fékk nokkra álitsgjafa til að tjá sig um ráðninguna.

Hvernig líst þér á ráðninguna á Erik Hamren?


Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV
Erik Hamrén kemur inn með mikla reynslu af landsliðsumhverfi og því hvernig sá heimur virkar jafnframt því sem hann þekkir vel umhverfi félaganna sem landsliðsmenn okkar koma úr og hefur í gegnum árin þjálfað íslenska leikmenn í þeim félagsliðum sem hann hefur þjálfað. Þó að Erik sé dæmigerður sænskur þjálfari þá er hann ekki nýr Lasse, þeir eru ólíkir á margan hátt og það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig Erik nálgast verkefnið. Að mínum dómi er mikilvægast að nýir þjálfarar landsliðsins byggi áfram á því sem búið er að gera seinustu árin og að Erik hafi verið gerð grein fyrir því í upphafi viðræðna hans og Knattspyrnusambandsins. Það er ekki nóg að aðilar sem störfuðu áður í kringum íslenska teymið séu áfram með heldur þarf Erik að vera með á vagninum frá upphafi og koma svo með sín eigin áhrif þar inn.

Hjörvar Hafliðason, Sparkspekingur
Mér líst ákaflega vel á þetta og ég fagna þessari ráðningu. Ég hef aðeins kynnt mér feril hans sem þjálfari félagsliða og það lítur mjög vel út. Hann hefur unnið titla í Svíþjóð, Danmörku og Noregi. Hvað varðar árangur hans með Svíþjóð þá naut ég þess að horfa á Svía með hann sem þjálfara. Á EM 2012 spiluðu þeir mjög vel. Unnu meðal annars Frakka og töpuðu síðan fyrir Englendingum í leik keppninnar. Í umspili fyrir HM 2014 töpuðu þeir fyrir Portúgal í sýningu á milli Zlatan og Ronaldo. Í þeirri undankeppni höfðu þeir skemmt Evrópubúum í ótrúlegum leikjum gegn Þjóðverjum sem enduðu 4-4 og 2-1. Hamren fékk allt það besta úr Zlatan. Zlatan er súperstjarna sem eðlilegir norrænir þjálfarar þurfa aldrei að eiga við. Súperstjörnur eru ekki fyrirbæri sem við þekkjum á Norðurlöndunum. Í jafnaðarsamfélagi eins og í Svíþjóð fer það eflaust í taugarnar á blaðakútunum þar í landi að einstakur leikmaður fái einstaka meðferð en það virkaði.

Rikki G, Stöð 2 sport
Satt best að segja þá hélt ég að Guðni væri með annan ás en Hamrén í erminni. Hann er fínn þjálfari sem hefur unnið titla Danmörku og Noregi. Hann stýrði Svíum um langa hríð með yfir 50% sigurhlutfall sem verður að teljast gott. Hann lætur engan vaða yfir sig og bannaði til að mynda Zlatan að fljúga til Englands til að klara félagaskipti til Man Utd þegar stutt var í EM 2016. Þrátt fyrir það bar Zlatan mikla virðingu fyrir honum enda spilaði Hamrén nánast eins og Zlatan vildi hafa hlutina hjá Svíum. Munu hugmyndir hans hér henta stjörnu eins og Gylfa Sigurðssyni? Mögulega en hvað með hina þá? Mörgum spurningum er ósvarað en ég gef þessari ráðningu eins og hún lítur út fyrir mér 5 í einkunn. Trúi ekki að hann hafi verið fyrsti kostur í starfið hjá Guðna og KSÍ. Þó einn Svíi hafi virkað þá þarf ekki endilega að vera að annar geri það. Lars og Hamrén eru ekki líkar týpur þegar kemur að þjálfarafræði miðað við leikstíl Svía undir Lars og siðan Hamrén. En ég vona svo sannarlega að þetta gangi upp en ég leyfi mér að vera mjög svo hæfilega bjartsýnn. Ég óska honum hinsvegar allt það besta í haginn hans vegna og landsliðsins. Áfram Ísland.

Haukur Harðarson, RÚV
Mér líst ágætlega á hann. Kannski ekkert brjálæðislega spennandi kostur en íslenska liðið þarf heldur ekkert á spennu að halda. Er ekki viss um að stórt nafn með litla reynslu hefði hentað Íslandi vel. Líkindin við Lars-ráðninguna eru augljós en helsti munurinn kannski sá að Hamrén passar sig vel á því að skítlúkka alltaf a hliðarlínunni!

Gunnar Jarl Jónsson, fyrrum dómari
Umræðan hefur verið frekar serstök. Nöfn eins og David Moyes, Bilic og Henry. Galið. Fólk verður að átta okkur á fjárhag sambandsins. KSÍ var að teygja sig langt með Lagerback og hann myndi telja ódýr. Við förum ekki alltaf á stórmót og það er óábyrgt gagnvart félögunum á Íslandi að ráða risa nafn sem setur fjárhaginn á annan endann. Hamren er með flotta ferilskrá og ég hef ekki skilið neikvæðnina í kringum þetta. Ég vil sjá Frey með Hamren og taka svipaða hugmyndafræði og var gert með Lars og Heimi. Gæjinn kom Svíum tvisvar á EM og þekkir að stýra landsliði auk góðs árangurs með félagslið á Norðurlöndum. Hvernig fólk er brjálað yfir þessu átta ég mig ekki á. Ég treysti Guðna og stjórn KSÍ og efast ekki um að þetta hafi verið gert faglega. Fjölmiðlar í Svíþjóð þekktir fyrir æsifréttsmennsku og leyfi því Hamren að njóta vafans. Ég vona fyrst og fremst að okkar velgengni haldi áfram undir stjórn Hamren og Freysa.

Hjálmar Örn Jóhannsson, grínisti
Mér líst vel á þennan strák, (ok hann er reyndar 61 árs) en virkar á mig sem mátulega dull og það er oft lykillinn að succesful landsliðsþjálfara. Þetta er akkúrat þjálfarinn sem við þurftum ekki Henry eða Sammi Sopi eins og einhverjir bjartsýnismenn og konur vildu, og það að Svíar virðast ekki þola hann gerir þetta enn meira skemmtilegra. Ég segi því bara Heje Hamren!

Baldur Sigurðsson, Stjarnan
Ég skal viðurkenna að ég þekki störf Hamrén afskaplega lítið og get því ekki tjáð mig um hvernig hann muni henta sem landsliðsþjálfari Íslands. Ég skil samt pælinguna mjög vel hjá KSÍ enda tók Hamrén við af Lars hjá Svíþjóð á sínum tíma og náði fínum árangri með liðið. Mér finnst þetta vera metnaðarfullt skref hjá KSÍ að ráða Hamrén þar sem hann er eflaust með háar launakröfur eftir nokkuð farsælan feril sem þjálfari. Liðið er kominn á þann stall að það verður að vera „heimsklassa“ þjálfari í brúnni. Nú er bara nýtt upphaf og spennandi að sjá hvernig gengur hjá honum með liðið. Það er allavega engin ástæða til að hlusta á þessa yfirgengilega þreyttu sænsku fjölmiðla. Hann á skilið að fá góðar móttökur eins og Lars fékk og svo verður bara árangurinn að tala sínu máli.

Arnar Björnsson, Stöð 2
Hamrén er sennilega ekki verri kostur en margur annar. Það sem skiptir öllu máli er að landsliðsmennirnir sannfærist um að hann sé rétti maðurinn til að halda merki þeirra Lars og Heimis á lofti. Hamrén er sagður harður í horn að taka. Kannski er fínt að fá þannig þjálfara. Hamrén er reynslubolti og þangað til annað kemur í ljós ætla ég að gefa honum sjéns. Vonandi verður hann jafn almennilegur við íslenska fjölmiðlamenn eins og heiðursmennirnir Lars og Heimir. Ég er amk kátur með að Big Sam stjórni ekki næstu æfingum liðsins.
Athugasemdir
banner