Manchester United ætlar að funda með danska framherjanum Rasmus Höjlund í kjölfar þess að félagið er að ganga frá kaupum á Benjamin Sesko frá Leipzig.
Sesko verður kynntur hjá United á laugardag og verður hann framherji númer eitt á tímabilinu.
Þetta þýðir að Höjlund, sem kom til United frá Atalanta fyrir tveimur árum, verður annar í goggunarröðinni.
Höjlund hefur til þessa sagt að hann ætli að berjast fyrir framtíð sinni hjá United og að hann sé ekki hræddur við samkeppni, en samkvæmt Fabrizio Romano mun Man Utd funda með Höjlund á næstu dögum til þess að skoða hvað sé best í stöðunni fyrir hann og félagið.
Ítalska félagið AC Milan er sagt áhugasamt um Höjlund og sé að skoða það að fá hann á láni, en það þyrfti að borga lánsgjald og sjá alfarið um laun leikmannsins. Þýska félagið Leipzig hefur einnig talað við United um Höjlund, sem gæti þá fyllt skarðið sem Sesko skilur eftir sig.
Ekki er útilokað að Höjlund verði áfram hjá United, sem myndi auka breiddina fyrir tímabilið. Það myndi kannski gera honum gott að vera hungraður á bekknum og reyna að nýta þær mínútur sem hann fær, en það kemur allt saman betur í ljós á næstu dögum.
Athugasemdir