Newcastle United er áfram í leit að framherja eftir að hafa misst af Benjamin Sesko en sjö koma til greina samkvæmt enska blaðamanninum Craig Hope sem starfar hjá Daily Mail.
Enska félagið vonast til þess að bjarga glugganum sem hefur verið alger martröð til þessa.
Það hefur misst af öllum helstu skotmörkum sínum og nú þurft að finna ný skotmörk til að landa áður en glugginn lokar eftir rúmar þrjár vikur.
Hope segir sjö koma til greina og að líklegustu kostirnir akkúrat núna séu Jörgen Strand Larsen hjá Wolves og Yoane Wissa hjá Brentford.
Newcastle hefur átt í viðræðum við Brentford um Wissa og hefur það vissulega hjálpað að leikmaðurinn sé að reyna þrýsta sölunni í gegn.
Hann kom að 24 mörkum í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð á meðan Strand Larsen kom að 18 mörkum hjá Wolves, en hann var á láni frá Celta Vigo og var síðan keyptur til enska félagsins í sumar.
Tveir aðrir koma til greina og telur Hope þá vera næstu möguleika á eftir Wissa og Strand Larsen, en það eru þeir Ollie Watkins hjá Aston Villa og Rodrigo Muniz hjá Fulham.
Þeir eru álitnir varakostir ef félaginu tekst ekki að kaupa Strand Larsen og/eða Wissa.
Newcastle er hrifið af Nicolas Jackson hjá Chelsea og er hann fáanlegur í glugganum, en hann er samt á eftir hinum fjórum í röðinni á óskalistanum.
Goncalo Ramos hjá Paris Saint-Germain og Lois Openda hjá RB Leipzig hafa einnig verið orðaðir við Newcastle, en á þessum tímapunkti er talið ólíklegt að félagið reyni að fá þá.
Athugasemdir