þri 07. september 2021 12:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Flick vildi ekki nefna einn lykilmann hjá Íslandi
Icelandair
Hansi Flick, landsliðsþjálfari Þýskalands.
Hansi Flick, landsliðsþjálfari Þýskalands.
Mynd: Getty Images
Hansi Flick, landsliðsþjálfari Þýskalands, sat fyrir svörum á Zoom fréttamannafundi fyrir hádegi í dag.

Lærisveinar Flick eru að mæta hingað til lands þar sem þeir mæta Íslandi í undankeppni HM.

Flick fékk tvær spurningar frá íslenskum fréttamönnum varðandi íslenska liðið, sem hefur breyst mikið frá fyrri leik liðanna í mars - leik sem Þýskaland vann 3-0.

„Íslenska liðið sýndi hvað það getur með að jafna leikinn gegn Norður-Makedóníu. Íslendingarnir leggja mikið á sig og fá öflugan stuðning frá stuðningsmönnum sínum," sagði Flick og bætti við að íslenska liðið gæti varist vel og sótt hratt, og þýska liðið þyrfti að varast það vel.

Það eru margir lykilmenn fjarverandi hjá Íslandi en Flick segist aðallega vera að hugsa um sitt eigið lið. Fréttamaður Fótbolta.net spurði hvaða leikmenn hann teldi vera lykilmenn í íslenska liðinu að þessu sinni.

„Það er bara liðið þeirra í heild... fyrir mér er aðalmálið að mitt lið sé einbeitt og að við sýnum góða frammistöðu. Við vitum að Ísland er gott lið," sagði landsliðsþjálfari Þjóðverja sem tók við liðinu eftir Evrópumótið í sumar. Hann stýrði þar áður Bayern München og náði þar mjög góðum árangri. Hann stýrði liðinu meðal annars til sigurs í Meistaradeildinni.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner