Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
banner
   þri 07. september 2021 14:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hafa búið sér til nýtt DNA undanfarin tíu ár
Icelandair
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari.
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það má svo sannarlega búast við erfiðum leik þegar Þýskaland kemur í heimsókn á Laugardalsvöll annað kvöld.

Leikurinn er í undankeppni HM, en Ísland er aðeins með fjögur stig í riðlinum eftir fimm leiki - og á ekki mikinn möguleika á því að fara áfram.

Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, sat fyrir svörum frá fréttamannafundi og var hann spurður út í þýska liðið.

„Það þarf ekkert að segja fólki hversu Þjóðverjarnir eru og geta verið. Undanfarin tíu ár hafa þeir þróað sinn leik að nútímafótbolta. Þeir eru mjög sókndjarfir og geta spilað mismunandi leikkerfi," sagði Arnar.

„Til þess að við getum náð í úrslit, þá þurfum við að vera mjög þéttir og loka ákveðnum svæðum mjög vel. Við þurfum að vera rosalega duglegir. Við þurfum að færa liðið okkar mjög hratt til að loka svæðum varnarlega. Svo þurfum við að nýta okkar hröðu sóknir. Við verðum minna með boltann á morgun."

Ísland tapaði 3-0 gegn Þýskalandi í mars. Frá þeim leik hefur íslenska liðið breyst mikið og það þýska er jafnframt komið með nýjan þjálfara; Hansi Flick tók við af Joachim Löw.

„Þeir eru enn jafn sókndjarfir, sækja á mörgum mönnum og það er mikil hreyfing án bolta. Þeir eru að reyna að finna sömu svæði sóknarlega og eru að pressa alveg eins hátt. Þeir hafa búið sér til nýtt DNA undanfarin tíu ár, eða kannski aðeins lengur. Þetta er ekki gamli þýski skólinn þar sem þeir voru stál í stál. Þeir eru með frábært fótboltalið," sagði Arnar.
Athugasemdir
banner