banner
   þri 07. september 2021 08:00
Ívan Guðjón Baldursson
Paulo Sousa: Við erum bara með Robert
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Paulo Sousa, portúgalskur þjálfari pólska landsliðsins, gerir sér fulla grein fyrir gæðamuninum á leikmannahópi sínum og hópi enska landsliðsins fyrir viðureign liðanna í undankeppni fyrir HM í Katar.

England er með fullt hús stiga á toppi riðilsins og er Pólland fimm stigum á eftir, í baráttu við Albaníu og Ungverjaland um 2. sætið.

Robert Lewandowski er stjörnuleikmaður Pólverja og er Sousa ekki smeykur við að tala opinskátt um gæðamuninn á honum og restinni af landsliðinu.

„Við viljum spila gegn bestu liðum heims en við vitum að við erum ekki í sama gæðaflokki og England. Ef þeir missa mann í meiðsli eru þeir með tvo eða þrjá tilbúna sem eru í sama gæðaflokki. Hérna er það bara Robert," sagði Sousa, þjálfaði QPR, Swansea og Leicester á Englandi.

„Sem þjálfari talar maður um liðið en það er satt að það er stór gæðamunur á Robert og liðsfélögum hans. Við nálgumst það eins vel og við getum og Robert skilur það enda er hann frábær leiðtogi sem elskar þjóð sína.

„Hann veit að með landsliðinu þarf hann að gera fjórum, fimm eða sex sinnum meira heldur en hann gerir hjá Bayern til að vinna. Þegar við erum með Robert á vellinum er alltaf möguleiki á að skora mark."


Lewandowski er ein af mestu markavélum heimsknattspyrnunnar og er markahæsti leikmaður í sögu pólska landsliðsins.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner