Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 07. október 2021 20:39
Victor Pálsson
Þjóðadeildin: Frakkar í úrslit eftir magnaða endurkomu
Mynd: EPA
Belgía 2 - 3 Frakkland
1-0 Yannick Carrasco ('37 )
2-0 Romelu Lukaku ('40 )
2-1 Karim Benzema ('62 )
2-2 Kylian Mbappe ('69 )
2-3 Theo Hernandez ('90 )

Það vantaði ekki upp á fjörið í undanúrslitum Þjóðadeildarinnar í kvöld er Belgía og Frakkland áttust við í leik um sæti í úrslitum.

Það var ljóst að sigurlið kvöldsins myndi mæta Spánverjum en Spánn vann Ítalíu með tveimur mörkum gegn einu í gær.

Belgar skoruðu fyrsta mark leiksins í kvöld en Yannick Carrasco kom knettinum í netið á 37. mínútu með laglegu skoti í nærhornið þar sem Hugo Lloris komst ekki í boltann í marki Frakka.

Þessi forysta tvöfaldaðist þremur mínútum seinna er Romelu Lukaku skoraði sitt 68. Landsliðsmark fyrir Belga og staðan 2-0 í hálfleik.

Heimsmeistararnir svöruðu loksins á 62. mínútu er Karim Benzema skoraði innan teigs úr ansi erfiðri stöðu.

Benzema fékk sendingu frá Kylian Mbappe og tókst á skemmtilegan hátt að koma boltanum í netið framhjá Thibaut Courtois.

Sjö mínútum síðar jafnaði Mbappe svo sjálfur metin fyrir Frakka en hann skoraði þá af vítapunktinum örugglega framhjá Courtois.

Belgar virtust svo hafa tekið forystuna á ný á 87. mínútu en annað mark Lukaku var þá dæmt af vegna rangstöðu.

Paul Pogba var nálægt því að koma Frökkum yfir stuttu eftir þetta atvik en hann átti þá aukaspyrnu af nokkuð löngu færi sem hafnaði í þverslá.

Sigurmarkið kom svo stuttu eftir aukaspyrnu Pogba er Theo Hernandez, bakvörður AC Milan, átti þrumuskot innan teigs sem Courtois réð ekki við í marki Belga og staðan 3-2.

Frábær endurkoma Frakklands staðreynd og mætir liðið Spánverjum í úrslitaleiknum sjálfum.
Athugasemdir
banner
banner