þri 07. nóvember 2017 10:33
Elvar Geir Magnússon
Doha í Katar
Nóg af vatnspásum á fyrstu æfingu Íslands í Katar
Icelandair
Aron Einar fær sér vatn í hitanum í Doha.
Aron Einar fær sér vatn í hitanum í Doha.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrsta æfing íslenska landsliðsins hér í Katar er að baki en æft var í 30 stiga hita á Abdullah bin Khalifa leikvanginum í Doha. Skiljanlega var reglulega gert hlé á æfingunni til að leikmenn gætu fengið sér vatn og hent á sig sólarvörn.

Spáð er tæplega 30 stiga hita á morgun þegar Ísland mætir Tékklandi í fyrri vináttuleik sínum í Katar. Leikurinn hefst 14:45 að íslenskum tíma, 17:45 að staðartíma.

Æfingin í dag var í styttra lagi og mjög misjafnt hversu mikinn þátt leikmenn tóku enda margir þeirra nýkomnir til landsins úr löngu ferðalagi eftir verkefni með félagsliðum sínum eftir helgina.

Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari hefur gefið það út að Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði komi lítið sem ekkert við sögu í leikjunum tveimur sem framundan eru, gegn Tékkum á morgun og svo Katar eftir viku. Aron hefur verið að glíma við meiðsli og æfði hann einn undir stjórn Frikka sjúkraþjálfara og Sebastian Boxleitner styrktarþjálfara.

Diego Jóhannesson og Kristján Flóki Finnbogason voru báðir með á æfingunni í morgun en þeir voru kallaðir inn í hópinn vegna meiðsla Birkis Más Sævarssonar og Björns Bergmanns Sigurðarsonar.

Fastlega má gera ráð fyrir því að Heimir Hallgrímsson róteri vel á mönnum í leikjunum tveimur og gaf æfing dagsins það vel í skyn. Þarna fá leikmenn sem eru ekki fastamenn í hóp eða byrjunarliði tækifæri til að láta ljós sitt skína.

Fótbolti.net er í Katar og fylgist vel með strákunum í þessu verkefni.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner