Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   lau 07. nóvember 2020 12:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Adidas slítur samstarfi við Qarabag í Aserbaídsjan
Mynd: adidas
Þýski íþróttavöruframleiðandinn Adidas hefur slitið samstarfi sínu við fótboltfélagið Qarabag í Aserbaídsjan.

Þessi ákvörðun er tekin vegna ummæla samskiptastjóra félagsins, Nurlan Ibrahimov, á samfélagsmiðlum.

Þar hvetur hann samlanda sína til að drepa alla þá Armena sem á vegi þeirra verða. „Við (Aserar) verðum að drepa alla Armena án þess að gera greinarmun á börnum, konum eða öldruðum. Engin eftirsjá. Engin samkennd," skrifaði hann.

Það ríkir ekki mikil ást á milli Aserbaídsjan og Armeníu og hafa löndin átt í löngum og blóðugum deilum um Nagorno-Karabakh landsvæðið sem er á milli landanna.

Armenska knattspyrnusambandið fékk veður af þessum ummælum og kvartaði til UEFA, sem hefur ákveðið að setja Ibrahimov í bann.

Adidas, sem hefur verið í samstarfi með Qarabag, hefur þá ákveðið að slíta samstarfi við knattspyrnufélagið.

„Það er mikilvægt að árétta að Adidas er ekki sammála þessum skoðunum á einn né neinn hátt. Við höfum tekið skjóta ákvörðun um að slíta samstarfi við félagið," sagði talsmaður Adidas.

Qarabag hefur unnið úrvalsdeildina í Aserbaídsjan sjö sinnum í röð. Hannes Þór Halldórsson lék með félaginu frá 2018 til 2019.
Athugasemdir
banner
banner