mán 07. nóvember 2022 22:01
Ívan Guðjón Baldursson
Spánn: Fyrsta tap Real Madrid kom gegn nágrönnunum
Oscar Trejo skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu.
Oscar Trejo skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu.
Mynd: EPA
Real Madrid er aðeins búið að ná í eitt stig úr síðustu tveimur deildarleikjum og þarf að passa sig að missa Börsunga ekki alltof langt framúr sér.
Real Madrid er aðeins búið að ná í eitt stig úr síðustu tveimur deildarleikjum og þarf að passa sig að missa Börsunga ekki alltof langt framúr sér.
Mynd: Getty Images

Rayo Vallecano 3 - 2 Real Madrid
1-0 Santi Comesana ('5)
1-1 Luka Modric ('37, víti)
1-2 Eder Militao ('41)
2-2 Alvaro Garcia ('44)
3-2 Oscar Trejo ('67, víti)


Rayo Vallecano og Real Madrid áttust við í nágrannaslag í kvöld þar sem fáir bjuggust við að heimamenn ættu mikla möguleika gegn ríkjandi Spánar- og Evrópumeisturunum.

Heimamenn tóku forystuna snemma leiks en Luka Modric jafnaði með marki úr vítaspyrnu á 37. mínútu. Modric skoraði eftir umdeildan vítaspyrnudóm og kom Eder Militao meisturunum yfir með skalla eftir hornspyrnu skömmu síðar.

Real stefndi til leikhlés með forystu en Alvaro Garcia náði að gera jöfnunarmark með bylmingsskoti skömmu áður en dómarinn flautaði. Staðan 2-2 eftir fjörugan fyrri hálfleik.

Í síðari hálfleik ríkti jafnræði með liðunum allt þar til á lokakaflanum. Heimamenn fengu þó dæmda vítaspyrnu þegar Dani Carvajal varð fyrir því óláni að fá boltann í höndina innan vítateigs. Oscar Trejo steig á punktinn en Thibaut Courtois varði spyrnuna við mikinn fögnuð liðsfélaganna. Fögnuðurinn var þó skammlífur því Trejo var látinn endurtaka spyrnuna; hvorugur fótur Courtois var á marklínunni þegar vítaspyrnan fór af stað.

Trejo skoraði úr seinni tilraun sinni og ríkti mikil spenna á lokakaflanum. Real leitaði að jöfnunarmarki af öllum lífs- og sálarkröftum en það gekk ekki.

Þetta er fyrsta tap Real Madrid á deildartímabilinu. Liðið er búið að missa toppsætið til Barcelona og situr í öðru sæti með 32 stig eftir 13 umferðir, tveimur stigum eftir Barca.

Rayo Vallecano er á góðri siglingu og var þetta þriðji sigur liðsins í röð í deildinni. Rayo er í áttunda sæti, tveimur stigum frá Evrópu.


Athugasemdir
banner
banner
banner