fim 07. desember 2017 12:48
Magnús Már Einarsson
Arnór Ingvi: Malmö er stærsta félagið á Norðurlöndunum
Arnór Ingvi Traustason.
Arnór Ingvi Traustason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Malmö er stærsta félagið á Norðurlöndunum og um leið og ég heyrði af áhuga vildi ég koma hingað," sagði Arnór Ingvi Traustason í viðtali við heimasíðu Malmö eftir að hann kom til félagsins frá Rapid Vín í dag.

Arnór Ingvi varð sænskur meistari með Norrköping árið 2015 og hann mun nú leika með Malmö sem er núverandi meistari.

„Það er ótrúlega gott að þetta er klárt. Ég hlakka til að hitta liðsfélaga mína og starfsfólkið og byrja að spila og æfa. Ég ætla að gera allt sem ég get til að hjálpa liðinu á næsta ári."

„Ég hef spilað nokkrum sinnum á móti Malmö og veit hversu gott liðið og stuðningsmennirnir eru."

Skilur síðasta eitt og hálft ár eftir
Arnór Ingvi gekk í raðir Rapid Vín í fyrra en fékk fá tækifæri þar. Í sumar fór hann til AEK Aþenu á láni en þar voru tækifærin einnig af skornum skammti.

„Núna skil ég síðasta eitt og hálfa árið eftir í fortíðinni, það var tími sem var ekki góður. Ég hef ekki fengið að spila mikið og ég hef verið hjá félögum sem hafa bæði skipt um þjálfara og yfirmann íþróttamála. Þetta hefur verið erfitt en núna er ég ánægður með að vera kominn til Malmö FF."

Ræddi við félaga í landsliðinu
Kári Árnason, Viðar Örn Kjartansson og Emil Hallfreðsson, liðsfélagar Arnórs í íslenska landsliðinu, hafa allir leikið með Malmö á ferlinum.

„Ég ræddi við þá alla en mest við Kára. Ég hef einungis fengið góða dóma frá þeim. Mér leist vel á allt sem þeir sögðu. Liðið og liðsfélagarnir eru góðir. Staðurinn er góður sem og nálægðin við Kaupmannahöfn."

Stefnir á HM
Arnór Ingvi kom talsvert við sögu á EM í Frakklandi í fyrra en síðan þá hefur tækifærum hans með landsliðinu fækkað.

„Ég hef verið með landsliðinu í gegnum alla undankeppni HM en ég hef ekki spilað mikið. Landsliðið er mjög þýðingarmikið fyrir mig. Það er HM á næsta ári og ég vil fara með þangað," sagði Arnór.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner