Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 08. mars 2018 19:30
Elvar Geir Magnússon
Guðjón: Hundeltur ef maður fór af hótelinu
Guðjón er opinn fyrir því að fara aftur til Indlands.
Guðjón er opinn fyrir því að fara aftur til Indlands.
Mynd: ISL
Guðjón var lánaður frá Stjörnunni.
Guðjón var lánaður frá Stjörnunni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég held að allir hefðu sagt já. Þetta er þvílíkt ævintýri og upplifun," segir sóknarmaðurinn Guðjón Baldvinsson um símtalið í vetur þegar honum bauðst að fara til Kerala Blasters í indversku Ofurdeildinni.

Sjá einnig:
Innkastið - Guðjón Baldvins og indverska ævintýrið

Guðjón, sem var lánaður frá Stjörnunni til Indlands, kom heim til Íslands í vikunni en Kerala missti naumlega af sæti í úrslitakeppninni. Menningarmunurinn milli Íslands og Indlands er rosalegur.

„Það er ekki keyrt eftir akreinum þarna, það er bara svissað fram og til baka. Þegar ég var sóttur á flugvöllinn var búið að keyra á okkur eftir fimm mínútur! Það var samt ekkert verið að taka skýrslu eða neitt, það var bara rifist í mínútu og svo haldið áfram."

Fótboltaáhuginn fer hratt vaxandi í hinu mjög svo stóra Indlandi og Kerala er það lið í landinu sem á flesta fylgjendur. Guðjón eignaðist skyndilega gríðarlega marga aðdáendur.

„Það er rosalega margir áhorfendur og hvert sem þú horfir eru gular treyjur. Þetta hljómar kannski furðulega en maður fór ekkert mikið út af hótelinu því þá var maður hundeltur. Maður sker sig úr og er auðþekkjanlegur, þegar þú ert að spila með þessu liði ertu bara Guð í augum aðdáenda. Fólk grét ef það fékk „selfie" með manni," segir Guðjón.

Indverjar leggja mikið upp úr markaðssetningu og Guðjón var nýttur í hinar ýmsu kynningar. Meðal annars þegar opnaður var fótboltaskóli í landinu og hann átti að flytja smá ræðu.

„Ég hélt að ég ætti að hitta einhverja krakka og segja hæ. Þá er ég bara settur upp á svið og átti að halda ræðu. Ég staulaðist upp á svið og salurinn var fullur af fólki. Ég hélt bara stutta ræðu um hvað Ísland hefur náð góðum árangri og hvað Indland ætti að geta með miklu fleira fólk. Svo komu spurningar og með mér sat sendiherra Bretlands og einhverjir þvílíkir kallar."

„Sendiherrann hélt ræðu og sagðist muna eftir mér frá því að ég spilaði gegn Englandi á EM! Ég hugsaði bara 'fokk, þeir halda að ég hafi verið að spila á EM'. Það gafst svo aldrei tækifæri til að leiðrétta þennan misskilning og ég vonaðist til að þetta myndi ekki fréttast. Svo fékk ég fullt af kveðjum: 'Gangi þér vel á HM!' og ég snéri bara út úr 'Já, ég vona að Íslandi gangi vel'. Allt sem við gerðum þarna var ansi fyndið og skemmtilegt."

Guðjón telur sig hafa grætt mikið á því að fara í þessa lánsdvöl til Indlands og segir að vel sé hugsað um leikmenn og öll umgjörð fyrsta flokks. Hann mælir svo sannarlega með því að leikmenn stökkvi á svona tækifæri ef það býðst.

„Það eru fín gæði í þessu og þú ert að spila í alvöru deild, þú ert með toppaðstæður," segir Guðjón. En ef hann myndi fá sama tækifæri að ári, myndi hann stökkva á það?

„Ég veit alveg til þess að það var ánægja með mig. Ég lagði mig fram og skilaði mínu tel ég. Ef það verður til þess að eitthvað meira gerist þá myndi ég klárlega segja já. Auðvitað er menningin öðruvísi en það er erfitt að finna betri aðstæður fyrir fótboltamann."

Guðjón var í viðtali í hljóðvarpsþættinum Innkastið sem hægt er að hlusta á með því að smella hér eða hjá Fótbolta.net í gegnum Podcast forrit
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner