þri 08. júní 2021 11:43
Elvar Geir Magnússon
Eiður Smári: Ekki komnir til að vera æfingafélagar Pólverja
Icelandair
Það eru leyfðir yfir 20 þúsund áhorfendur á leiknum í kvöld.
Það eru leyfðir yfir 20 þúsund áhorfendur á leiknum í kvöld.
Mynd: KSÍ
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Pólland og Ísland mætast í vináttulandsleik í dag klukkan 16:00 en leikurinn fer fram á heimavelli Lech Poznan. Leikurinn verður sýndur beint á RÚV og verður auk þess í beinni textalýsingu hér á Fótbolta.net.

Þetta er lokahnykkurinn í þessum landsleikjaglugga Íslands en áður hafði liðið tapað naumlega gegn Mexíkó og unnið svo Færeyjar naumlega í leik þar sem frammistaða Íslands var ekki góð.

„Spurningin er hvort við getum náð blöndu af góðri frammistöðu og góðum úrslitum. Hvort við getum blandað saman þessum tveimur leikjum," segir Eiður Smári Guðjohnsen, aðstoðarþjálfari landsliðsins, á leikdegi.

„Það eru allir klárir. Það er nokkuð létt yfir okkur. Það fer vel um okkur hérna og leikurinn verður spilaður við frábærar aðstæður á frábærum velli. Væntanlega verða einhverjir þúsundir áhorfenda."

„Pólverjar eru á leið á stórmót en við komum ekki hingað sem æfingafélagar. Við erum ekki hérna til að hita þá upp fyrir það mót, við erum á okkar vegferð og erum að leggja grunninn að því sem við ætlum að reyna að taka með okkur inn í haustið þar sem við spilum þrjá mjög mikilvæga landsleiki," segir Eiður.

„Þetta er endahnúturinn á þeim undirbúningi. Vonandi náum við góðri frammistöðu og sýnum góða orku og samstöðu. Ef við náum því held ég að úrslitin fylgi. Við búumst við mjög sterku liði, eru með mjög flotta leikmenn og eru vel spilandi. Þeir ættu að vera í toppstandi en við þurfum að sýna að við erum það líka."

Áhorfendur á vellinum
Ísland og Pólland hafa mæst sex sinnum í A landsliðum karla. Fimm sinnum hafa Pólverjar fagnað sigri, en einu sinni var niðurstaðan jafntefli og var það í vináttuleik á Laugardalsvelli árið 2001. Andri Sigþórsson skoraði mark íslenska liðsins seint í leiknum. Arnar Þór Viðarsson sem er nú við stjórnvölinn hjá íslenska landsliðinu spilaði þann leik.

Sem fyrr segir mætast liðin nú í Poznan, á heimavelli Lech Poznan, sem tekur tæplega 42 þúsund áhorfendur í sæti, en leyfilegur hámarksfjöldi að þessu sinni er helmingur af sætafjöldanum. Leikvangurinn var vígður árið 1980 og endurbættur árið 2010. Leikurinn er síðasti leikur pólska liðsins áður en það hefur þátttöku í lokakeppni EM og er búist við mikilli stemmningu á leikvanginum, sem hefur einnig hýst risatónleika listamanna á borð við Sting, Aliciu Keys og hina síungu rokkara í Iron Maiden.


Athugasemdir
banner
banner
banner