sun 08. júlí 2018 11:12
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Spánn í þjálfaraleit - Hierro ekki áfram
Fernando Hierro.
Fernando Hierro.
Mynd: Getty Images
Fernando Hierro stýrði Spáni á HM í Rússlandi en hann mun ekki halda áfram með liðið núna þegar þáttöku Spánverja á mótinu er lokið. Þetta hefur spænska knattspyrnusambandið staðfest.

Hierro tók við Spáni tveimur dögum fyrir fyrsta leik þeirra í Rússlandi. Julen Lopetegui, sem átti að stýra liðinu á HM, var rekinn eftir að hann var ráðinn stjóri Real Madrid. Knattspyrnusambandið gaf þá skýringu að Lopetegui hefði farið á bak við sambandið og ekki látið vita að hann væri að taka við Real, fyrr en seint og síðar meir.

Lopetegui var rekinn og Hierro, goðsögn í spænska landsliðinu, var ráðinn í hans stað.

Verkefnið var erfitt fyrir Hierro enda er það ekki auðvelt að taka við liði þegar tveir dagar eru í næsta leik.

Hann stýrði Spánverjum þó til sigurs í B-riðli Heimsmeistaramótsins. Hins vegar þegar komið var í 16-liða úrslit féllu Spánverjar úr leik gegn gestgjöfum Rússlands í vítaspyrnukeppni.

Hierro var áður yfirmaður knattspyrnumála hjá spænska knattspyrnusambandinu en hann mun ekki snúa aftur í þá stöðu.

Roberto Martinez, landsliðsþjálfari Belgíu, hefur verið orðaður spænska starfið síðustu daga en fullt af öðrum hæfileikaríkum þjálfurum hljóta líka að koma til greina. Þjálfarar eins og til að mynda Luis Enrique og jafnvel Zinedine Zidane.
Athugasemdir
banner
banner
banner