Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 08. september 2021 10:00
Elvar Geir Magnússon
Heimild: BBC 
46 ára og snýr aftur í takkaskóna eftir tólf ára bann
Francesco Flachi er 46 ára en í janúar á næsta ári lýkur tólf ára banni hans.
Francesco Flachi er 46 ára en í janúar á næsta ári lýkur tólf ára banni hans.
Mynd: Getty Images
Ferill Flachi hefur verið tengdur við umdeild atvik.
Ferill Flachi hefur verið tengdur við umdeild atvik.
Mynd: Getty Images
Snemma árs 2007 var Francesco Flachi á góðri leið með að verða goðsögn hjá ítalska félaginu Sampdoria. Hann var fyrirliði, kominn með yfir 100 mörk og var valinn í ítalska landsliðið í fyrsta sinn.

En eftir leik gegn Inter 28 janúar 2007 breyttist líf hans algjörlega þegar hann féll á lyfjaprófi, kókaín fannst í blóði hans. Hann var samstundis settur í tveggja ára bann frá afskiptum af fótbolta.

„Á einu augabragði tapaði ég öllu. Ég var stjarna í Genóa, hafði byrjað nýtt ár á tveimur mörkum og hafði nýlega verið valinn í landsliðið," segir Flachi.

Hann var vanur því að vera umdeildur en ári áður, 2006, var hann dæmdur í tveggja mánaða bann og sagður hafa komið að skipulagningu á hagræðingu úrslita. „Ég kom ekki nálægt því. Ég játaði þetta aldrei," segir Flachi.

Eftir að hafa afplánað tveggja ára bannið fyrir lyfjanotkunina var honum gefin tækifæri með B-deildarliðunum Brescia og Empoli en atburðir síðustu ára höfðu tekið sinn toll.

„Andlega var ég ekki sama persónan lengur og ég gat ekki ráðið við sjálfan mig," segir Flachi sem féll aftur á lyfjaprófi vegna kókaínnotkunar í desember 2009. Hann var þá dæmdur í tólf ára bann frá fótboltaiðkun fyrir endurtekið brot.

Flachi mátti ekki spila en óopinberlega þjálfaði hann lið sem heitir Bagno a Ripoli í Genóa ásamt því að þjálfa yngri flokka Signa 1914. Það verður hjá aðalliði Signa, sem er í fimmtu deild ítalska boltans, þar sem hann mun snúa aftur út á fótboltavöllinn í janúar þegar banni hans lýkur.

„Dagurinn nálgast og ég er afskaplega spenntur. Við byrjuðum að grínast með þetta en svo fór að færast meiri alvara í þetta. Ég hef ekki spilað alvöru ellefu manna bolta í tólf ár en ég er fótboltamaður og lifi fyrir ástríðuna sem ég hef saknað svo mikið," segir Flachi sem er 46 ára og er að æfa með liðinu.

„Ég gerði mistök og tók út mína refsingu. Ég er ekki með sama hraða og ég var en ég get hjálpaði liðsfélögum mínum að fá trú á sjálfum sér. Ég vil líka fá þá til að sjá hversu falleg íþrótt fótbolti er. Þeir mega ekki tapa því sem ég kastaði frá mér."

Flachi segist ekki líta á sig sem fórnarlamb, hann hafi gert mistök og tekið út refsingu. Að fá svona langt bann breytti lífi hans algjörlega.

„Í fyrstu gat ég ekki með nokkru móti horft á fótbolta. En svo bretti ég upp ermar og fór að horfa fram veginn. Ég hef opnað tvo veitingastaði í Flórens og notað tímann í að elda mat," segir Francesco Flachi í viðtali við BBC.
Athugasemdir
banner
banner
banner