Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   fös 08. október 2021 12:41
Elvar Geir Magnússon
Vanda klár í kosningabaráttu: Planið að vera lengur en til febrúar
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég man satt að segja ekki eftir því að það hafi verið meira að gera hjá mér á ævinni en þessa dagana. En þetta er mjög skemmtilegt og krefjandi," sagði Vanda Sigurgeirsdóttir í hlaðvarpsviðtali við Fótbolta.net.

Vanda var sjálfkörin sem formaður KSÍ síðasta laugardag og er yfir bráðabirgðastjórninni sem starfar fram að næsta ársþingi í febrúar. Vanda stefnir á að vera komin til að vera í formannstólnum til lengri tíma.

„Það er allavega planið og það sem mig langar til að gera. Við gerum okkur öll grein fyrir því að það er stuttur tími fram í febrúar og þú nærð bara ákveðnu. Þetta er bráðabirgðastjórn en mig langar að vera lengur."

Vanda segist klár í kosningabaráttu ef það kemur mótframboð í febrúar.

„Mér finnst ekkert óeðlilegt ef það verða framboð til formanns á næsta þingi. Ég er langt í frá að biðja um að vera aftur sjálfkörin. Það er lýðræði og þessi hreyfing verður að ákveða það," segir Vanda.

Hún hefur að mestu fengið góð viðbrögð eftir að hafa sest í formannsstólinn en hefur orðið var við einhver neikvæð líka. Þar talar hún um umræðu sem hafi átt sér stað í hlaðvarpsþáttum..

„Ekki kannski í kringum mig en einhver Podcöst, það var sagt að ég gæti ekki tekið ákvarðanir, það fannst mér kostulegt. Það var talað um að ég myndi segja já og amen ef UEFA myndi segja mér á fundi að Ísland myndi spila klukkan tíu. Þið bara þekkið mig ekki strákar! Ég hef heyrt af einhverju utan að mér," segir Vanda létt.

Vanda segir mikið verk framundan að bæta ímynd KSÍ og það sé vinna sem klárist ekki á skömmum tíma.

„Allir þurfa að sjá að þetta er komið í farveg, það er mikilvægt til að við fáum traust. Eitt af því sem ég er sérfræðingur í er að breyta menningu og það tekur tíma. Ég geri mér grein fyrir því en við förum í þetta á fullri ferð," segir Vanda.
Vanda Sig er sest í formannsstólinn - Ætlar að koma KSÍ úr krísunni
Athugasemdir
banner