fim 08. nóvember 2018 15:48
Magnús Már Einarsson
Aron Einar: Eins og að vera hjá sálfræðingi
Aron Einar er að gefa út ævisögu sína.
Aron Einar er að gefa út ævisögu sína.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bókin er væntanleg í búðir í kringum 20. nóvember.
Bókin er væntanleg í búðir í kringum 20. nóvember.
Mynd: .
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég hef verið lengi í Englandi og hef séð þessar ævisögur sem hafa verið að koma út. Það hefur þróast út í það að leikmenn gefa þær út þegar þeir eru 28-29 ára og hafa minningarnar ferskar," segir Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði, en hann er að gefa út ævisögu sína sem heitir: Aron - sagan mín.

„Ég hef lesið nokkrar ævisögur í gegnum tíðina og haft gaman að þeim. Sumar þeirra eru öðruvísi en aðrar. Ég hafði gaman að Sir Alex og mér fannst Zlatan bókin vera mjög skemmtileg. Ein af mínum uppáhalds bókum er síðan um Mike Tyson. Ég hef lesið mikið af ævisögum í gegnum tíðina og út frá því kemur þessi hugmynd kannski upphaflega. Mér fannst réttur tími núna til að skilja aðeins eftir á blaði," sagði Aron við Fótbolta.net í dag.

„Þetta átti fyrst að vera EM og HM bók en þegar ég byrjaði að tala við Einar Lövdahl, sem er ritari í þessari bók, þá æxlaðist þetta þannig að þetta varð að ævisögu. Við byrjuðum óvart frá unga aldri."

Hugmyndin kviknaði í undankeppni EM
Aron fékk sjálfur hugmyndina að bókinni en hann hefur gengið með hugmyndina í maganum í þónokkurn tíma.

„Þessi hugmynd kom upphaflega í kringum undankeppni EM þegar við vorum að standa okkur vel og allt stefndi í að við kæmust á EM. Ég ákvað að punkta hjá mér og láta verða af þessu síðar. Ég punktaði niður dót í kringum landsliðið og síðan kom að HM og þá fór ég að hugsa með mér hvort það væri ekki tímabært að byrja á þessu. Ég vil leyfa fólki að upplifa stemninguna frá öðru sjónarhorni."

„Fjölmiðlar hafa verið umgangast okkur mikið og vel og leyft fólki að fylgjast með en ég vildi hafa þetta frá sjónarhorni leikmannsins en ekki bara viðtals sjónarhorn. Það getur verið öðruvísi að ræða við persónuna í gegnum bók heldur en viðtal, þá er hægt að kynnast persónunni meira. Mér finnst skylda að leyfa fólki að kynnast mér og strákunum í hópnum í öðru ljósi."

„Þetta er fínt fyrir næstu kynslóðir líka. Ég get náð að fræða þau aðeins hvað við höfum gengið í gegnum og lagt hart að okkur til að ná þessum árangri. Það er ekki sjálfgefið að ná þessum árangri, það þarf að leggja á sig."


Öðruvísi mynd af hlutum en í fjölmiðlum
Í bókinni fer Aron ítarlega ofan í ýmis þekkt atriði frá ferlinum, meðal annars það hvernig það var að vera ekki á staðnum þegar sonur hans Oliver fæddist, fræg ummæli í viðtali fyrir landsleik í Albaníu og meiðslin fyrir HM í sumar.

„Ég fer ítarlegra í hlutina og þetta er öðruvísi mynd á hlutina en kemur út í fjölmiðlum. Ég er er ekki að þessu til að búa til sögur, fara upp á móti fólki eða þræta um hluti. Það hefur aldrei verið mín persóna. Þó ég hefði gefið bókina út þegar ég væri hættur þá myndi ég hvort sem er ekki gera það," sagði Aron og bætir við bókin höfði ekki bara til hörðustu fótboltaaðdáanda.

„Þetta er ekki bara fyrir fótboltaaðdáendur. Fólk sem tók þátt í EM og HM veislunni fær aðra mynd á þetta og ég kem svolítið inn á fyrirliðahlutverkið. Það getur höfðað til fólks sem er í leiðtogahlutverkum í vinnu sinni. Þetta er öðruvísi saga en einhver venjuleg fótboltasaga."

Táraðist við að rifja hluti upp
Einar Lövdahl, ritari bókarinnar, fékk punkta frá fjölskyldu og vinum Arons sem og félögum hans í landsliðinu. Í kjölfarið fór hann yfir ævi Arons og úr varð bókin. Aron og Einar hittust í Cardiff í mars og síðan fór vinnan við bókina á fulla ferð.

„Þetta voru skemmtilegir tímar. Ég var að rifja upp hluti sem ég hafði gengið í gegnum. Skemmtilega hluti sem fólk hefur fylgst með og erfiða tíma líka. Það var erfiðara að upplifa þá aftur en ég hélt. Að rifja alla þessa hluti upp með Einari var eins og að vera hjá sálfræðingi. Ég veit ekki hvort hann hafi tekið því eftir því þegar maður var tárast sjálfur þegar maður var að tala um ýmsa hluti. Sumir hlutir í bókinni koma frá hjartanu og fólk á vonandi eftir að hafa gaman að því. Ég er meira stressaður fyrir því að láta fólk kynnast persónunni Aroni heldur en að spila gegn Frökkum í 8-liða úrslitum á EM," sagði Aron léttur að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner