sun 08. nóvember 2020 08:30
Ívan Guðjón Baldursson
Qarabag kannast ekki við ósætti við Adidas
Mynd: Getty Images
Mikið hefur verið rætt um ástandið í Aserbaídsjan og Armeníu eftir að UEFA dæmdi samskiptastjóra Qarabag, stærsta félagsliðs Aserbaídsjan, í bann fyrir hrottaleg ummæli um nágrannaþjóðina Armeníu.

Samskiptastjórinn hvatti samlanda sína til að drepa sem flesta Armena með færslum á samfélagsmiðlum. Armenska knattspyrnusambandið fékk veður af færslunum og lét UEFA umsvifalaust vita.

Í kjölfarið var greint frá því að Adidas, styrktaraðili Qarabag, hefði slitið tengslum við félagið. Qarabag, sem hefur unnið efstu deild í Aserbaídsjan sjö ár í röð, segir þær fregnir þó ekki vera sannar.

„Fjölmiðlar hafa verið að greina frá því að Adidas sé búið að slíta samstarfi sínu við Qarabag. Sem félag þá viljum við taka fram að þessar fregnir eru ekki sannar," segir í yfirlýsingu sem Qarabag birti á Instagram.

Tommaso Saronni, talsmaður Adidas, staðfesti að fataframleiðandinn væri búinn að slíta samstarfi sínu við Qarabag vegna ummæla samskiptastjórans. Qarabag hefur þó ekki enn tekið út tilkynninguna út af Instagram.

Hannes Þór Halldórsson lék fyrir Qarabag áður en hann skipti yfir til Vals í Pepsi Max-deildinni.



Sjá einnig:
Samskiptastjóri Qarabag bannaður fyrir að hvetja til drápa á Armenum
Adidas slítur samstarfi við Qarabag í Aserbaídsjan
Athugasemdir
banner
banner