Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 09. janúar 2020 10:50
Elvar Geir Magnússon
„Malmö bjó til Zlatan en ekki öfugt"
Styttan af Zlatan fékk ekki að vera í friði.
Styttan af Zlatan fékk ekki að vera í friði.
Mynd: Twitter
Zlatan er nú hjá AC Milan.
Zlatan er nú hjá AC Milan.
Mynd: AC Milan
„Við erum reið því hann heldur að hann geti gert það sem hann vill en samt verið elskaður. Hann skilur ekki hvernig er að vera sannur stuðningsmaður," segir Simon Bengtsson, stuðningsmaður Malmö, við BBC.

Hann er einn margra stuðningsmanna Malmö sem eru ekki tilbúnir að fyrirgefa sóknarmanninum Zlatan Ibrahimovic.

Malmö er heimaborg Zlatan en stytta af honum fyrir utan heimavöll fótboltafélags borgarinnar hefur orðið fyrir fjölmörgum skemmdarverkum eftir að Zlatan keypti hlut í Hammarby, erkifjendum Malmö.

Zlatan hefur sagt að hann vilji gera Hammarby að stærsta liði Skandinavíu.

„Stór meirihluti stuðningsmanna Malmö eru svekktir með Zlatan. Enginn sem ég þekki kemur honum til varnar. Sumum finnst rangt að skemma styttuna en segjast skilja af hverju það er gert," segir Bengtsson.

„Áður voru allir stoltir af honum. Alheimsstjarna var alin upp í okkar félagi. Í dag vill maður ekki vita neitt af honum."

„Hann telur að við eigum að vera þakklát fyrir það sem hann hefur gert fyrir okkur. Staðreyndin er samt sú að hann vann ekkert hjá Malmö. Hann var seldur fyrir mikinn pening og þá er þetta upptalið," segir Bengtsson.

Kaveh Houseeinpour, varaformaður stuðningsmannafélags Malmö, telur að það eigi ekki að vera stytta af Zlatan í borginni.

„Hann hefur tapað sambandi sínu við borgina og félagið. Hugsunarháttur Malmö hefur verið 'við á móti heiminum' og það var Malmö sem bjó til Zlatan, Zlatan bjó ekki til Malmö," segir Houseeinpour.

Listamaðurinn sem bjó til styttuna hefur sjálfur sagt að kannski sé best að hún verði staðsett í Mílanó en Zlatan er genginn í raðir AC Milan í annað sinn.
Athugasemdir
banner