fim 09. janúar 2020 23:27
Brynjar Ingi Erluson
Messi ósáttur: Gerðum barnaleg mistök
Lionel Messi í leiknum í kvöld
Lionel Messi í leiknum í kvöld
Mynd: Getty Images
Argentínski sóknarmaðurinn Lionel Messi var brjálaður eftir 3-2 tap Barcelona gegn Atlético í undanúrslitum spænska Ofurbikarsins.

Barcelona lenti 1-0 undir í leiknum með marki Koke í upphafi síðari hálfleiks en tókst þó að snúa taflinu við. Messi jafnaði metin með skoti af stuttu færi og Antoine Griezmann kom þá Barcelona yfir stuttu síðar gegn sínum gömlu félögum.

Tvö mörk voru dæmd af Barcelona. Messi átti fyrra markið en þá var einnig mark dæmt af Gerard Pique vegna rangstöðu. Undir lokin klúðraði Barcelona forystunni en Alvaro Morata jafnaði metin úr vítaspyrnu áður en Angel Correa tryggði sigurinn fimm mínútum fyrir leikslok.

„Þetta er synd því við spiluðum frábærlega. Okkur leið loksins vel og vorum að stjórna leiknum og vorum allan tímann í sókn en við missum forystuna útaf ákveðnum mistökum. Atético-liðið var nánast hætt en svo snúa þeir þessu við á nokkrum mínútum," sagði Messi.

„Þetta er sárt því þetta er titill sem við vildum og við vildum fara í úrslitaleikinn. Við tókum skref fram á við í dag en við vitum að við höfum ekki verið að gera hlutina eins og við hefðum viljað og við viljum ekki gera svona barnaleg mistök aftur," sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner