Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 09. janúar 2022 18:47
Brynjar Ingi Erluson
Þýskaland: Þriðji sigur Köln í röð - Ekkert gengur hjá Wolfsburg
Anthony Modeste skoraði með skalla
Anthony Modeste skoraði með skalla
Mynd: EPA
Bochum vann Wolfsburg
Bochum vann Wolfsburg
Mynd: EPA
Þýska liðið Köln er í góðum gír en það vann þriðja leik sinn í deildinni í röð er það lagði Herthu Berlín að velli, 3-1. Nýliðar Bochum unnu þá Wolfsburg, 1-0.

Köln sótti mikið í byrjun leiksins og átti fyrstu tvö hættulegu færin en fyrst skallaði Ondrej Duda framhjá áður en Mark Uth átti fínasta skot framhjá.

Myziane Maolida átti að koma Herthu yfir er hann komst einn á móti Marvin Schwäbe en hann varði vel. Í næstu sókn kom fyrsta mark leiksins frá franska framherjanum Anthony Modeste með skalla eftir frábæra fyrirgjöf frá Uth.

Þremur mínútum síðar bætti Ondrej Duda með góðu skoti úr teignum og þá var Modeste nálægt því að gera þriðja markið áður en flautað var til loka fyrri hálfleiks.

Heimamenn komu ákveðnari til leiks í þeim síðari og leið ekki langt þangað til Vladimir Darida minnkaði muninn. Hertha fékk aukaspyrnu vinstra megin á vellinum. Darida kom boltanum inn í teiginn en enginn náði snertingu áður en hann skoppaði af grasinu og í hægra hornið.

Hertha sótti og sótti og var nálægt jöfnunarmarki en Darida gerði út um vonir þeirra með skelfilegum mistökum í uppbotartíma er hann tók við boltanum, missti hann frá sér til Jan Thielmann, sem keyrði í gegn og átti í engum vandræðum með að skora. Lokatölur 3-1 fyrir Köln sem vinnur þriðja leik sinn í röð og er í 6. sæti með 28 stig.

Sjötta tap Wolfsburg í röð

Nýliðar Bochum unnu sanngjarnan 1-0 sigur á Wolfsburg í dag en þetta var sjötta tap Wolfsburg í röð. Bochum var með yfirráð allan fyrri hálfleikinn og í raun ótrúlegt að liðið hafi ekki verið yfir.

Wolfsburg kom með kraft í þeim síðari og náði Bochum að bjarga á línu eftir klukkutímaleik. Mikilvæg björgun áður en Milos Pantovic skoraði sigurmark Bochum fimm mínútum síðar með skalla úr teignum.

Þetta reyndist eina mark leiksins og er Bochum í 11. sæti með 23 stig en Wolfsburg í 14. sæti með 20 stig.

Úrslit og markaskorarar:

Hertha 1 - 3 Koln
0-1 Anthony Modeste ('29 )
0-2 Ondrej Duda ('32 )
1-2 Vladimir Darida ('57 )
1-3 Jan Thielmann ('90 )

Bochum 1 - 0 Wolfsburg
1-0 Milos Pantovic ('65 )
Athugasemdir
banner
banner
banner